„Eins og að fara á kajak í Vök“
Stuðlagil á Jökuldal hefur á tiltölulega stuttum tíma sprungið út sem einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og um leið vakið athygli á Austurlandi. Áhyggjur eru þó af hegðun ferðamanna í gilinu.„Þetta er einn heitasti áfangastaðurinn á Íslandi þetta sumarið. Fólk kemur sérstaklega austur til að skoða hann og verður mjög hrifið,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.
Gestir hafa verið duglegir að birta myndir af sér og gilinu á samfélagsmiðlum. Flestar sýna fólk horfa bergnumið á fegurð gilsins en inn á milli má sjá myndir sem sýna það sem Jónína kallar „óábyrga ferðahegðun.“
Ekki sundstaður
Sumir hafa stungið sér til sunds í gilinu en um þverbak keyrði í byrjun vikunnar þegar maður birti mynd af sér fljótandi á blöðrudýri niður eftir Jökulsá á Brú. Kunnugir hafa fordæmt hegðun sem þessa og bent á hættu sem stafi af straumum sem fólk vari sig ekki á.
Jónína tekur undir þessa gagnrýni og bætir við að fólk sé ekki eingöngu að stofna sjálfu sér í hættu heldur skemma fyrir öðrum sem vilji njóta gilsins.
„Það er mikilvægt að fólk sýni ábyrga ferðahegðun þarna sem annars staðar. Fólk hefur verið að stinga sér til sunds af stuðlunum, sem er hættulegt því það er erfitt að sjá bíður niður í ánni. Fólk getur stórslasað sig ef það lendir vitlaust auk þess sem í ánni geta verið niðursog. Við megum ekki gleyma því að í raun er þetta jökulá.
Síðan hefur fólk verið að fara þarna um á ýmsum útbúnaði. Slíkt skemmir upplifun annarra. Þetta er eins og að fara í Vök baths á kajak,“ segir Jónína.
Framkvæmdir til bóta
Mikil ásókn ferðafólks hefur valdið átroðning á landið beggja megin árinnar og það hefur látið á sjá. Landeigendur beggja megin árinnar hafa verið í framkvæmdum og að norðanverðu í landi Grundar eru nú komnir upp pallar. Að sunnanverðu í landi Klaustursels, þar sem ganga má niður í gilið, er verið að gera stíga.
„Sú uppbygging sem komin er af stað hefur lukkast vel og fólk er almennt ánægt með hana. Við teljum pallana koma vel út og vera góða lausn því að norðanverðu var erfitt að nálgast gilið vegna bratta.“
En þrátt fyrir misgáfulega hegðun og álag í sumar telur Jónína Stuðlagilið hafa mikla möguleika til framtíðar bæði fyrir nánast umhverfi sem og Austurland í heild. „Við erum bjartsýn á að þarna sé kominn einn stærsti ferðamannasegull Austurlands. Bæði Stuðlagil og Vök hafa aukið verulega fjölbreytnina á Austurlandi og við erum spennt að þróa gilið sem áfangastað til framtíðar.“
Mynd: María Hjálmarsdóttir