Einstaklega vel varðveittar textílleifar frá Seyðisfirði

Leifar af textíl, sem fundist hafa við fornleifauppgröftinn á Seyðisfirði, hafa vakið athygli erlendra sérfræðinga fyrir hversu vel varðveittar þær eru. Leirker sem komu í ljós eru einnig langþráð viðbót við flóru íslenskra fornleifa.

Textílleifarnar fundust í kumli konu sem grafið var upp í fyrrahaust. Þótt þær láti ekki mikið yfir sér í augum leikmanns þá eru þær merkilegar því afskaplega lítið hefur fundist af textíl hérlendis.

„Okkur virðist konan hafa verið í að minnsta kosti þrenns konar klæðnaði: yfirhöfn, skyrtu og kjól. Þetta er ofið úr ull og má sjá spjaldvefnað á kápunni og að minnsta kosti þrjá mismunandi liti. Forverðir Þjóðminjasafns Íslands, þær Sandra Einarsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir, sáu um flókna og krefjandi forvörslu.

Í haust komu textílsérfræðingar frá Noregi og Danmörku, þær Marianne Vedeler og Ulla Mannering, til að skoða textílleifarnar og munu vinna að frekari greiningum í vetur. Þetta eru meðal best varðveittu textílleifa sem hafa fundist frá þessum tíma og því mjög merkilegar að þeirra mati,“ segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur hjá Antikva sem stýrt hefur uppgreftrinum í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Langþráð leirker

Fleiri gripir sem eru merkilegir í íslensku samhengi hafa fundist á Seyðisfirði. „Við höfum grafið í öskuhaugnum sem er frá 940-1100. Hann er fullur af gripum, snældusnúðum, járngripum, klébergsgrýtum, perlum og leirkerum. Við höfum alltaf beðið eftir að finna meira af leirkerum hérlendis. Við höfum fundið ein 40 brot þannig við getum teiknað upp pottinn eða pottana sem þau hafa tilheyrt.

Leirker sem þessi finnast heldur ekki í Noregi en eru algeng frá Stokkhólmi og suður úr um Danmörku og Þýskaland. Leirkerasérfræðingurinn okkar, hann Torbjörn Brosson, telur þau vera frá Suður-Skandinavíu eða Jótlandi en við getum tekið sýni úr brotunum og borið saman við önnur til að fá nánari vísbendingar um hvaðan þau komu. Eins getum við tekið sýni innan úr brotunum til að sjá hvað fólkið hér eldaði og borðaði.“

Uppgröfturinn í sumar stóð frá lokum maí þar til seint í ágúst. „Við höfum fyrst og fremst verið að grafa upp hús frá tveimur tímaskeiðum. Annars vegar skála, útihús og vefjastofu frá 940-1100, hins vegar miðaldabyggingar frá 1100-1300,“ segir Ragnheiður.

Grafið er í landi Fjarðar vegna framkvæmda við snjóflóðavarnir í norðanverðum Seyðisfirði. Upphaflega átti rannsóknum að ljúka á tveimur árum en ljóst er að bæta þarf þriðja árinu við. Veturinn er síðan nýttur til varðveislu gripa og úrvinnslu gagna.

Uppgröfturinn í sumar renndi stoðum undir kenningar um að líkamsleifarnar, sem fundust í kumlateignum í fyrra, hafi búið í byggingunum sem nú voru grafnar upp. Eins eru vísbendingar um að sumt þeirra gripa sem jarðaðir voru með fólkinu hafi verið unnir á staðnum. Verulega bættist í gripaflóruna í sumar, meðal annars brýni og fjöldi perla. Allt þetta hefur vakið athygli út fyrir landssteinana og í sumar kom erlent sjónvarpstökulið á Seyðisfjörð við gerð heimildaþátta.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar