Einum færri með virkt smit
Fækkað hefur í hópi þeirra sem eru með virkt Covid-19 smit á Austurlandi. Lögregla þurfti að ítreka reglur um sóttkví við nokkra farþega sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í morgun.Eins og Austurfrétt hefur greint frá var lögregla kölluð til í morgun vegna sex manna hóps úr Norrænu sem fór inn í verslun Nettó á Egilsstöðum, í trássi við leiðbeiningar til erlendra ferðamana um sóttkví.
Í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands segir að allir þeir sem komu með Norrænu í morgun, um 190 talsins, hafi fengið leiðbeiningar um reglur sem gilda um för yfir landamæri, sem eru sóttkví í 5-6 daga og tvöfalda sýnatöku.
Þar kemur fram að örfáir þeirra hafi ekki virst átta sig fyllilega á reglunum og farið í kjörbúið eftir komuna, sem sé óheimilt. Afskipti voru höfð af þeim eftir ábendingar starfsmanna verslunarinnar og reglurnar áréttaðar við þá.
Þeir hafi virst átta sig á stöðunni þá og heitið því að halda á sóttkví. Lögregla hefur ekki haft afskipti af öðrum farþegum.
Samkvæmt reglum skulu allir þeir sem koma til landsins sýna fram á hvað þeir munu dvelja meðan þeir eru í sóttkví og sá staður vera staðfestur af yfirvöldum. Í tilkynningunni segir að allir þeir sem komu með Norrænu hafi sýnt fram á hvar þeir myndu dvelja í sóttkví, nokkur fjöldi þeirra verður hér eystra.
Af þessu tilefni vill aðgerðastjórnin hvetja Austfirðinga til árvekni sem fyrr. Mikilvægast sé að huga að eigin smitvörnum, meðal annars tveggja metra reglunni.
Vakin er athygli á að nokkur fjöldi ferðamanna er á svæðinu sem komið hafi til landsins fyrir nokkru og uppfylli allar kvaðir heilbrigðisyfirvalda. Öruggast sé að gæta alltaf að eigin smitvörnum og gagnvart öllum, óháð búsetu eða ríkisfangs. „Þannig búum við hvorki við falskt öryggi eða óþarfa ótta,“ segir í tilkynningunni.
Sjö eru í einangrun í fjórðungnum nú vegna virks smits og hefur fækkað um einn.