Ekkert gengur að fá fólk til starfa hjá Síldarvinnslunni
Ómar Bogason skrifstofustjóri Síldarvinnslunnar segir að ekkert gangi að fá fólk til starfa í fiskvinnslu hjá þeim. Fyrirtækið muni auglýsa eftir fólki í vikunni.Eins og fram kom í frétt hér á Austurfrétt leitaði Síldarvinnslan að fólki til starfa á heimasíðu sinni í síðustu viku. Undirtektir voru vægast sagt dræmar.
„Þetta hefur gengið alveg bölvanlega hreint út sagt,“ segir Ómar. „Ég er mjög hissa á að enginn sæki um þar sem við bjóðum upp á góða aðstöðu fyrir starfsfólk okkar og ágætis tekjur."
Ennfremur kemur fram í máli Ómars að staðan sé undarleg í ljósi þess að töluvert atvinnuleysi sé framundan á Austurlandi í kjölfar þess að botninn er dottinn úr ferðaþjónustunni það sem af er ársins.
„Maður hefði haldið að óreyndu að fólk myndi nota tækifærið og sækja um önnur störf, að minnst kosti til að brúa bilið þar til atvinnuhorfur vænkast,“ segir Ómar.
Mynd: Síldarvinnslan