Ekkert smit og enginn í sóttkví

Enginn er í einangrun vegna Covid-19 smits né í sóttkví á Austurlandi. Enginn annar landshluti státar af því í dag. Yfirlögregluþjónn segir ástæðu til að gleðjast en minnir Austfirðinga á að halda vöku sinni.

Samkvæmt upplýsingum af Covid.is eru staðan sú að enginn er í sóttkví eða einangrun á Austurlandi. Smit er í öllum öðrum landshlutum nema Norðurlandi vestra en þar er einn einstaklingur í sóttkví.

Ekkert nýtt smit hefur greinst í fjórðungnum frá 16. ágúst en alls greindust átta einstaklingar með veiruna á svæðinu í ágúst, jafn margir og í mars og apríl.

„Við höfum verið að bíða eftir þessari niðurstöðu. Samkvæmt henni er ljóst að ekki hafa fleiri smit fylgt þessum átta. Þessi bylgja virðist því að baki,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Hann segir Austfirðinga hafa ástæðu til að gleðjast en minnir þá á að ganga hægt um gleðinnar dyr. „Þessi átta smit sýna hve litlu má muna og minna okkur á að halda vöku okkar alltaf, alls staðar.“

Almannavarnir á Austurlandi áminna því íbúa um að gæta að persónulegum smitvörnum, svo sem tveggja metra fjarlæg, handþvotti og sprittnotkun. Þessi atriði þarf að hafa í huga við haustverkin sem önnur verk.

„Takturinn er að breytast eftir sumarið og íbúar að að taka til við önnur verkefni. Framundan er félagsstarf, fundir, mannfagnaðir og samkomur. Það þarf yfirfæra reglurnar á þessi verkefni og gleyma sér ekki . Eins eru réttir að hefjast og við minnum fólk á að fylgja leiðbeiningum sem um þær gilda.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.