Ekki óeðlilegt að fá aðstoð fiskeldisfyrirtækis til að bregðast við mengun

Sveitar- og hafnarstjóri Múlaþings, Björn Ingimarsson, telur að yfirhafnarvörður á Seyðisfirði hafi brugðist rétt við þegar leitað var hjálpar fiskeldis Austfjarða til að koma í veg fyrir olíuleka úr El Grillo.

Töluverðar umræður hafa verið um málið á vettvangi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings en forsagan er að olíugildra við flak El Grillo á botni Seyðisfjarðar slitnaði frá í desember á síðasta ári með þeim afleiðingum að leka fór úr skipinu. Þegar ljóst varð að skip Landhelgisgæslunnar gætu ekki komið til aðstoðar til að koma gildrunni fyrir á ný var leitað til Fiskeldis Austfjarða í því skyni að kaupa af þeim búnað til verksins. Hitti svo á að fyrirtækið bjó þá yfir heppilegum búnaði sem til stóð að farga og því gat Seyðisfjarðarhöfn fengið búnaðinn endurgjaldslaust. Ice Fresh Farm bauðst jafnframt til að koma búnaðinum fyrir enda væri bátur frá þeim þá væntanlegur til Seyðisfjarðar.

Sveitarstjóri segir í svari til Austurfréttar að á þessum tíma hafi verið að berast kvartanir frá Umhverfisráðuneytinu vegna lekans og að höfðu samráði við Landhelgisgæsluna var afráðið að þiggja boð Fiskeldis Austfjarða og komist var fyrir lekann í kjölfarið.

„Umhverfisþátturinn er einn af megin þáttum í stefnumörkum hafna Múlaþings og stjórnendum ætlað að vinna samkvæmt því. Það er mat [mitt] að yfirhafnarvörður Seyðisfjarðarhafnar hafi brugðist rétt við og með ábyrgum hætti til að koma á vörnum við olíuleka á nýjan leik.“

Skýra verði reglur

Fulltrúar Vinstri grænna og Miðflokksins í umhverfis- og framkvæmdaráði gerðu málið að umtalsefni á fundi ráðsins í lok ágúst enda væri ábyrgð því fylgjandi að gefa og þiggja. Þar bókuðu fulltrúarnir að samkvæmt upplýsingum sem fram hafi komið hafi verðmæti gjafar Fiskeldis Austfjarða verið milli sex og átta milljónir króna. Kallað var eftir að sveitarfélagið setti sér skýrar reglur um slíkar gjafir einkafyrirtækja í ljós umræðunnar á fundinum.

Það er Fiskeldi Austfjarða sem áætlar að koma upp töluverðu fiskeldi í mynni Seyðisfjarðar en meðal bæjarbúa hefur verið mikil andstaða við þau áform um nokkra hríð. Svo mikil reyndar að bæjarbúar stofnuðu sérstakt baráttufélag gegn fiskeldi í firðinum snemma árs 2021.

Olía hefur nú lekið af og til úr flaki El Grillo í Seyðisfirði frá því fyrir aldamót. Landhelgisgæslan hefur sýnt mikinn lit að aðstoða gegnum tíðina en gátu ekki orðið að liði síðasta vetur. Mynd úr safni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar