Elta makrílinn yfir í síldarsmuguna

Makrílveiðar hafa gengið treglega og eru íslensku skipin nú að veiðum á alþjóðlegu hafsvæði, töluvert fyrr en í fyrra. Vonast er eftir góðum ágústmánuði en bjartsýnin er hófleg.

Íslensku makrílveiðiskipin hafa síðan um helgina flest verið á veiðum í Síldarsmugunni, alþjóðlegu hafsvæði nokkurn vegin miðja vegu milli Íslands, Jan Mayen og Noregs.

Þau skip sem eru austast eru Jóna Eðvalds frá Hornafirði og Jón Kjartansson, skip Eskju. Þau eru um 370 sjómílur norðaustur af landinu, um 50 sjómílur frá norsku landhelginni. Af þeim slóðum til Austfjarða er 30-36 tíma sigling.

Aldrei kraftur í íslensku lögsögunni

Fyrstu skipin fóru til makrílveiða um miðjan júní en flest í byrjun júlí. Baldur Marteinn Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, segir að vertíðin hafi verið dræm allan tímann.

„Það varð aldrei neinn kraftur í veiðunum í íslensku lögsögunni. Það kom mikil síld með og þegar hún var kominn í meirihluta gáfust menn upp. Þess vegna eru skipin komin á þetta svæði,“ segir hann.

Lítið að sjá

Veiðarnar ganga samt ekki vel og þótt mörg íslensku skipanna séu á landleið eru þau ekki full. Aðalsteinn Jónsson er á Eskifirði og á löndun úr honum að ljúka um miðnætti. Skipið náði 1000 tonnum en var með þeim fyrstu á miðin. Guðrún Þorkelsdóttir er væntanleg til Þórshafnar í fyrramálið með 400 tonn. Þá er von á Hoffelli, skipi Loðnuvinnslunnar, til Fáskrúðsfjarðar í nótt með um 700 tonn.

„Það gengur illa, það er lítinn fisk að sjá. Jón er kominn með 100 tonn. Skástu hollin á svæðinu síðasta sólarhring voru 100-110 tonn en svo hafa þau farið niður í ekki neitt,“ segir Baldur.

Vonast eftir góðum ágúst

Makrílveiðar hófust heldur fyrr í ár heldur en síðustu ár. Með því var vonast til að efla veiðarnar en þeim hefur lokið sífellt fyrr að hausti.

„Fyrir fimm árum vorum við að veiða þarna fram í október/nóvember. Fyrir tveimur árum í lok september og um miðjan september í fyrra. Við höfum farið á þetta hafsvæði um miðjan ágúst síðustu ár en erum núna þremur vikum fyrr á ferðinni. Það hefur verið reynt að byrja fyrr en það dugir ekki langt.“

Baldur segir enn bundnar vonir við að veiðin glæðist í ágúst en sú bjartsýni sé hófleg. „Við reynum að vera bjartsýn en það gengur misvel. Það er bara júlí enn og ágúst hefur oft gefið vel. Þetta er samt ekki góð þróun.

Við vonumst jafnvel til að makríllinn gangi aftur inn í íslenska lögsögu. Kannski erum við á undan fiskinum núna. Smugan hefur gefið fisk síðustu ár og það verður örugglega meiri veiði þar þannig við ættum að eiga góðan mánuð.“

Á móti þessari bjartsýni kemur sú staðreynd að skipin leita að makrílnum nú nærri norskri lögsögu. „Ef makríllinn gengur yfir í hana þá er þetta búið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.