Engin Hollywoodstjarna hefur látið sjá sig í Stuðlagili

Hollywoodstjarnan Will Smith hefur ekki sést enn sem komið er í Stuðlagili eins og fregnir hafa verið um. Raunar telur fólk þar mjög ólíklegt að stjarnan muni láta sjá sig.

Þetta kemur fram í máli Stefaníu Katrínar Karlsdóttur eins af eigendum jarðarinnar Grund á Efri Jökuldal.

„Það eru engir frægir á ferðinni hér bara venjulegt fólk,“ segir Stefanía Katrín í samtali við Austurfrétt. „Það er hópur fólks núna niður í gilinu að taka upp það sem virðast vera áhættuatriði í þessari mynd sem Will er að gera.“

Aðspurð um ónæði vegna tökuliðsins, sem telur nokkra tugi, segir Stefanía vissulega svo vera. Svæðinu hafi verið lokað í gær og í dag. Hún hafi því þurft að vísa ferðamönnum frá.

„Það var ekki um neinn fjölda að ræða en við erum enn að fá slæðing af erlendum ferðamönnum í skoðunarferðir.“ segir hún.

Eitt sinn útnefndur valdamesti leikari Hollywood

Will Smith, eða William Conrad Smith jr. eins og hann heitir í raun var ein af stærstu stjörnum Hollywood í kringum aldamótin, Hann hefur aldrei náð fyrri hæðum síðastliðin áratug eða svo.

Will Smith hóf feril sinn sem rappari/hipphoppari í hljómsveitum á borð við DZ Jazzy Jeff & The Fresh Prince og Ready Rock C. Stóra tækifærið kom svo þegar NBC sjónvarpssöðin bauð honum aðalhlutverkið í þáttunum The Fresh Prins of Bel-Air árið 1989. Það sem á eftir kom er þjóðsaga eins og þeir segja í Hollywood..

Eftir nokkur ár fór Will frá NBC og í kvikmyndir. Framinn lét ekki á sér standa. Eftir að hann lék í myndinni Bad Boys árið 1995 setti Will tvö aðsóknarmet sem seint verða slegin. Hann er eini leikarinn í sögunni sem hefur leikið í átta myndum i röð sem allar hafa skilað yfir 100 milljónum dollara, nær 14 milljörðum króna, hver í miðasölu á heimamarkaði (Bandaríkjunum). Á alþjóðamarkaðinum eru þetta ellefu myndir í röð sem hafa skilað inn yfir 150 milljónum dollara hver. Þetta voru myndir á borð við Muhammed Ali og Men in Black

Sennilega hefur Will Smith náð hátindi ferils síns árið 2007 þegar Newsweek timaritið útnefndi hann valdamesta leikarann í Hollywood. Um svipað leyti sagði Forbes tímaritið að hann væri öruggasta fjárfestingin á kvikmyndamarkaðinum. Eftir það fór hann um árabil að einbeita sér meira að tónlist.

Síðasta stórmynd Will var árið 2012 þegar Men in Black III kom á markaðinn og halaði inn vel yfir 600 milljónir dollara brúttó.

Á síðustu árum hefur Will af og til leikið í kvikmyndum en þær hafa ekki vakið neina  sérstaka athygli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.