Engin vegagerð í Berufirði meðan beðið er eftir svari Skipulagsstofnunar
Vegagerðin hefur óskað eftir að Skipulagsstofnun skoði hvort rétt sé að breytingar sem hafa orðið á framkvæmdum við nýjan veg yfir Berufjörð skuli fara í umhverfismat. Vegagerðin er í bið á meðan.Hreppsnefnd Djúpavogshrepps hafnaði á fundi sínum í síðustu viku ósk Vegagerðarinnar um að fá að taka meira efni úr námi í Svartagilslæk í norðanverðum Berufirði. Þegar hefði verið tekið meira efni en heimilt var.
Jafnframt kvað hreppsnefndin upp úr að allri efnistöku skyldi hætt strax og leitað yrði álits Skipulagsstofnunar.
Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar segir að næstu skref séu að hafa samband við Umhverfisstofnun. Verkið sé í bið á meðan og Héraðsverk að flytja tæki af verkstað.
Ástæðan fyrir efnisnotkuninni er mikið sig í veginum yfir fjörðinn. Sigið varð meðal annars til þess að ekki var hægt að opna veginn í síðasta mánuði eins og til stóð.
Í svari Vegagerðarinnar segir að verkinu sé að mestu lokið fyrir utan stuttan sigkafla og vonast að sigið sé á undanhaldi þannig að hægt verði að opna veginn í vor.