Engir meiraprófsmenn fást til starfa hjá Terra

Jón Trausti Guðjónsson rekstrarstjóri Terra á Austurlandi segir að hvorki hafi gengið né rekið að fá starfsfólk til vinnu hjá fyrirtækinu í sumar. Þá vanti aðallega fólk með meirapróf og vinnuvélaréttindi. Þrátt fyrir að hafa auglýst á landsvísu hefur þeim ekki tekist að ráða neinn.

„Hingað til höfum við aldrei þurft að leita út fyrir Austurland eftir mönnum til vinnu,“ segir Jón Trausti í samtali við Austurfrétt. „Það hefur ekki verið mikið los á starfsmönnum okkar og mikið til sami kjarni starfsmanna sem unnið hefur hér lengi.“

Aðspurður um ástæður þess að svona illa gangi segir Jón Trausti að því sé vandsvarað. Það ætti að vera nóg til af atvinnulausum bílstjórum nú þegar ljóst er að ferðamannageirinn er ekki orðinn nema svipur hjá sjón miðað við fyrri ár. Hins vegar var hlutabótaleiðin framlengd um tvo mánuði í gær og eins var tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta lengt í sex mánuði

„Af einhverjum ástæðum vilja menn bara ekki koma hingað,“ segir hann. „Við fengum að vísu einhverjar fyrirspurnar en þær voru flestar frá erlendum mönnum sem hvorki töluðu íslensku né ensku, krafan á okkar vinnusvæði er sú að töluð sé íslenska.“

Terra á Austurlandi sér um alla flutninga innan svæðis fyrir Alcoa á Reyðarfirði og það er því nóg að gera við keyrslu og tækjavinnu.

Ennfremur kemur fram í máli Jóns Trausta að húsnæðismálin ættu ekki að vera nein fyrirstaða. Það sé kannski erfitt að fá húsnæði á Egilsstöðum en hann telur að ekki sé vandamál að fá húsnæði niður á fjörðum.

„Menn geta búið í hvaða byggðakjarna sem er hér fyrir austan því við sjáum um ferðir til og frá vinnu fyrir þá þeim að kostnaðarlausu,“ segir Jón Trausti.

Hann segir einnig að ástandið hafi gert það að verkum að álagið á þá starfsmenn sem fyrir eru hefur aukist að mun. „Það er einmitt þetta aukna vinnuálag sem gerir það að verkum að menn hafa hætt hjá okkur. Segja að þetta sé of mikið fyrir þá,“ segir Jón Trausti. „Ég veit að fleiri fyrirtæki hér Austanlands eru í sama vanda og við.“

Aðspurður um hvernig Terra geti brugðist við þessu í náinni framtíð segir Jón Trausti ekki gott að svara því. „En ég er ekki bjartsýnn á að þetta lúxus vandamál okkur leysist í bráð,“ segir hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.