Enn engin aukning til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni

Enga aukningu er að finna í framlögum til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni frá tillögum síðustu ríkisstjórnar þrátt fyrir að velferðarráðuneytið hafi sent frá sér tilkynningu um aukin framlög í. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands heldur enn í vonina um að aukning náist fram, annars þurfi að gerða þjónustuna.

Velferðarráðuneytið sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem segir að framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni verði aukin um alls 1,5 milljarð króna, eða 6,8%. Aukning til HSA er 6,2%. Þessi prósentuaukning er hins vegar ekki ný, hún var einnig í fjárlagafrumvarpi þeirrar ríkisstjórnar sem fór frá völdum eftir kosningarnar í október.

Í minnisblaði sem forstjóri HSA, Guðjón Hauksson sendi til austfirskra sveitastjórna í nóvember er varað við að sú hækkun sem þá var boðið hrökkvi skammt. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins sé gert ráð fyrir 2,7% verðbólgu og 3% launahækkun. Eftir standi 0,5% hækkun eða 16 milljónir króna.

Í minnisblaðinu segir að sú upphæð dugi ekki til að halda uppi sambærilegri þjónustu árið 2018 og var 2017. Því þurfi að skera niður.

Í samtali við Austurfrétt í dag sagðist Guðjón efast um að forsendur héldu og benti á að dagvinnulaun opinberra starfsmanna hafi undanfarin ár hækkað um 8,4% á ári. Þá sé ekki reiknuð inn í hærri húsaleiga sem stofnunin þurfi að greiða né aukið umfang sjúkraflutninga.

„Það er engin breyting á milli fjárlagafrumvarps nýrrar ríkisstjórnar og þeirrar sem sat í haust til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Öll aukningin sem ný ríkisstjórn leggur til fer í Sjúkratryggingar Íslands og Landsspítalann.“

Í tilkynningu ráðuneytisins frá í dag er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að Landsspítalinn gegni veigamiklu hlutverki á landsvísu og veiti ýmsa sérhæfða þjónustu sem ekki sé veitt með neinu móti annars staðar. Aukin framlög til spítalans séu einkum til að mæta útskriftarvanda spítalans sem sé meðal annars vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu.

Guðjón var meðal forstjóra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem funduðu með fjárlaganefnd Alþingis í gær. „Við vorum þar til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Ég vil trúa því að það komi hækkanir til þessara stofnana á milli umræðna í þinginu um fjárlagafrumvarpið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.