Enn leitað að rafmagnsbilun í Neskaupstað
Leit stendur enn yfir að bilun í háspennustreng sem orsakaði víðtækt rafmagnsleysi í Neskaupstað í morgun. Rafmagnslaust var í stórum hluta bæjarins í tæpa klukkustund.Rafmagn fór af ytri hluta bæjarins rétt fyrir klukkan átta í morgun og komst aftur á kortéri fyrir níu. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik kom upp bilun í háspennustreng frá aðveitustöð. Rafmagni var komið á eftir annarri leið.
Þegar Austurfrétt óskaði fyrst eftir upplýsingum frá Rarik, laust fyrir klukkan tíu í morgun, voru engar upplýsingar á vef fyrirtækisins né heldur fáanlegar í bilanavakt. Að lokum var gefið samband við stjórnstöð fyrir Austurland. Þar tók við símsvari með upplýsingum að rafmagnsbilun væri í Neskaupstað. Atvikið var skráð á vef Rarik upp úr klukkan 10:30 og sagt að allir notendur ættu að vera komnir með rafmagn.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir að verið sé að leggja ljósleiðara í Neskaupstað og kannað verði hvort grafið hafi verið í streng. Rarik minni verktaka á að biðja um að láta sóna fyrir jarðstrengjum áður en byrjað sé að grafa til að koma í veg fyrir óhöpp.