Stefán Bogi: Erum þokkalega sátt með niðurstöðuna
Stefán Bogi Sveinsson oddviti Framsóknarflokks, í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi, segir að þau sé þokkalega sátt með niðurstöðu kosninganna sem fram fóru í gærdag.
„Þetta var að vísu ekki alveg í samræmi við væntingar okkar en ég vil þakka öllum þeim sem studdu okkur kærlega fyrir þann stuðning,“ segir Stefán Bogi en Framsóknarflokkurinn fékk tvo fulltrúa af ellefu í stjórn hins nýja sveitarfélags.
Aðspurður um hvort þreifingar um nýjan meirihluta séu þegar hafnar segist hann fyllilega gera ráð fyrir því. „Það má síðan reikna með að formlegar viðræður hefjist mjög snemma í komandi viku,“ segir Stefán Bogi.
Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn er í ákveðinni lykilstöðu hvað stjórnarmyndun varðar í krafti þess að hafa fengið fjóra menn kjörna af ellefu.
Aðspurður um hvort Framsóknarflokkurinn hafi áhuga á stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn segir Stefán Bogi að þau hafi átt í góðu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn hér á Héraði og ekkert skyggt á það samstarf.
„En þetta er rétt að byrja og við skulum bara sjá til“ segir hann.