Eskifjörður: Mikið rask á meðan framkvæmdum stendur en lítil varanleg áhrif

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir mikið lagt í mótvægisaðgerðir gegn áhrifum af framkvæmdum við ofanflóðavarnir við Hlíðarendaá á Eskifirði. Framkvæmdir við varnir við Ljósá verða kynntar á næstunni.


„Ég get verið sammála því að svæðið líti illa út í dag. Það er mikið rask á meðan framkvæmdum stendur. Það verða hins vegar lítil varanleg umhverfisáhrif, fyrst og fremst sjónræn, því það er mikið lagt í mótvægisaðgerðir,“ sagði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar á íbúafundi á Eskifirði í síðustu viku.

Íbúar á Eskifirði hafa bent á mikið rask sem fylgi framkvæmdum í Hlíðarendaá og jafnvel talið þær óþarfar. Á fundinum var bent á að framkvæmdirnar byggðu á hættumati frá árinu 2002 og til væru heimildir um hlaup í ánni þrisvar á síðustu öld, 1919, 1935 og 1988.

„Allir árfarvegir eiga sér sögu. Varnirnar miðast alltaf við að verja mannslíf,“ sagði Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi frá Eskifirði.

„Við fengum gult spjald þegar Grjótá hljóp í vetur. Þetta getur gerst mjög hratt,“ sagði Páll Björgvin.

Framkvæmdasvæðið nær frá sjó og nokkuð upp fyrir byggð. Farvegur árinnar er dýpkaður og breikkaður, hlaðnir stallar við bakka og steyptur leiðniveggur við efsta húsið. Þá er verið að byggja nýja brú yfir Strandgötu. Stefnt er að því að verkinu verði lokið í lok maí eða byrjun sumars.

Vinna við farveg Bleiksár lauk í sumar og í framhaldinu var farið í Hlíðarendaána. Framkvæmdum við árnar á Eskifirði var þó meðan annars forgangsraðað með tilliti til að trufla ekki framkvæmdir við ný Norðfjarðargöng.

Ljósá er næst á dagskránni. Verið er að ljúka hönnun á varnarmannvirkjum þar og stefnt að íbúafundi til að kynna þau 9. mars.

Mynd: Kristinn Þór Jónasson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.