Eskja byggir uppsjávarfiskiðjuver: Rökrétt skref í þróun félagsins

Eskja á Eskifirði hyggst reisa nýtt fiskiðjuver á lóð við hlið mjöl- og lýsisvinnslu félagsins. Um milljarða framkvæmd er að ræða sem gert er ráð fyrir að taki til starfa í haust. Breyting verður á viðskiptalíkani félagsins með því að fara úr sjófrystingu í landvinnslu.


„Við erum að fjárfesta til framtíðar. Við teljum þetta rökrétt skref í að bregðast við þeirri þróun sem hefur átt sér stað í uppsjávariðnaði og renna sterkari stoðum undir uppsjávarvinnslu Eskju ,“ segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs.

Í fyrsta áfanga stendur til að byggja sjö þúsund fermetra stálgrindarhús og hefjast framkvæmdir við það innan tíðar. Áætluð afköst verða 700-900 tonn á sólarhring með möguleika á stækkun í 1200 tonn.

Með nýja fiskiðjuverinu verður sú breyting á viðskiptalíkani félagsins að farið verður úr sjófrystingu í landfrystingu. „Það er ýmislegt sem kallar á þessar breytingar, svo sem mikil þróun í bæði veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski.

Við munum efla samkeppnishæfni félagsins með auknu vöruframboði og aukin afkastageta gefur okkur færi á því að tímasetja veiðar okkar betur og auka þar með tekjur félagsins..“

Gert er ráð fyrir að skipta út uppsjávarfrystiskipinu Aðalsteini Jónssyni fyrir hentugra skip með kælitönkum þegar nýja húsið verður tilbúið

Eskja ræðst í framkvæmdirnar þrátt fyrir slaka loðnuvertíð og minnkandi gegnd síldar síðustu ár. „Það verður að koma í ljós hver sú þróun verður en félagið er kvótasterkt í kolmunna og hefur töluverða veiðireynslu í makríl. Vissulega er loðnuúthlutun sveiflukennd og það er engin nýmæli fyrir okkur.

Við hjá Eskju höfum fulla trú á framtíð uppsjávarveiða við Ísland og Eskja er öflugt félag og vel í stakk búið til að stíga öldurnar og þegar vel gefur verðum við tilbúin með rétta búnaðinn.“

Eskja gerir út tvö uppsjávarveiðiskip sem veiða fyrir mjöl- og lýsisverksmiðju á Eskifirði. Að auki gerir félagið út línuveiðibát sem aflar hráefnis fyrir bolfiskvinnslu fyrirtækisins í Hafnarfirði. Hjá félaginu starfa um 130 manns í dag.

„Það er ljóst að störfum hjá félaginu fjölgar en við eigum eftir að fara nánar yfir það og gefum okkur tíma til að útfæra það betur með okkar starfsfólki,“ segir Páll aðspurður um áhrif uppbyggingarinnar á störf hjá félaginu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.