Fálkinn er floginn heim

„Við höfðum bara tvo daga til að bregðast við,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, en Djúpavogshreppur festi nýverið kaup á útskorum fálka eftir myndhöggvarann Ríkarð Jónsson, sem seldur var á uppboði hjá Chiswick-uppboðshúsinu í London í byrjun febrúar.



Safn með verkum og áhöldum Ríkarðs Jónssonar er í Löngubúð á Djúpavogi. Ríkarður Jónsson fæddist í Tungu í Fáskrúðsfirði þann 20. september 1888 en ólst upp frá unga aldri á Strýtu við Hamarsfjörð í sex systkina hópi.

Ríkarður varð fyrstur til að ljúka námi í myndskurðarlist hérlendis. Sveinsstykki hans var spegilumgjörð úr mahóní og er meðal þekktustu verka Ríkarðs Jónssonar og er nú eign Þjóðminjasafns Íslands. Árin 1911 – 1914 stundaði Ríkarður nám við höggmyndadeild Listaháskólans í Kaupmannahöfn.

Ríkarður bjó lengst af í Reykjavík og var til heimilis að Grundarstíg þar sem hann hafði einnig sína vinnustofu. Hann Maríu Ólafsdóttur og eignuðust þau fjögur börn. Ríkarður lést árið 1977 og var vinnustofna hans óhreyfð þar til árið 1994, þegar erfingjar hans ákváðu að ánafna Djúpavogshreppi öll listaverk og áhöld sem þar voru.

Kaupverð fálkans um 200 þúsund krónur
„Við sáum í fjölmiðlum að til stæði að bjóða fálkann upp. Við höfðum strax samband við Elísabetu Guðmundsdóttir í Bakkabúð sem hafði milligöngu um kaupin – en þau Felicity og Michael Bullock, sem eru okkur hér á Djúpavogi að góðu kunn og dvelja töluvert á Djúpavogi og á Hvalnesi í Lóni sem þau keyptu fyrir nokkrum árum, eru öllum hnútum kunnug þegar kemur að antík og listmunauppboðum og féllust á að fara á uppboðið og bjóða fyrir okkar hönd,“ segir Gauti.

Ráðgert er að fálkinn, sem Ríkarður skar út árið 1950, verði fluttur heim fljótlega og mun hann verða til sýnis ásamt öðrum gripum í Ríkarðssafni í Löngubúð. „Við höfum lagt okkur fram við að eignast eins mikið af munum eftir Ríkarðs og okkur er unnt þannig að safnið endurspegli feril hans í heild sinni,“ segir Gauti, en kaupverð fálkans var um 200 þúsund krónur. „Það eru margir dýrgripir eftir Ríkarð þarna úti sem okkur dreymir um að eignast, en enginn einn sem hæt er að nefna.“

Fyrirhugað Ríkarðshús
Gauti segir að í framtíðinni standi til að rekið verði sérstakt „Ríkarðshús“ þar sem verkum og ævi listamannsins verða gerð skil með myndarlegum hætti. „Dætur Ríkarðs, þær Ásdís og Ólöf, hafa ánafnað safninu eigum sínum, þar með talið miklum fjölda muna sem gerir þetta mögulegt, ásamt dýrmætum stuðningi sem við höfum fengið frá öðrum ættingjum listamannsins.“






Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.