Staðfest að farþegi úr Norrænu var með virkt smit
Farþegi, sem kom með Norrænu til Seyðisfjarðar á fimmtudag, reyndist með virkt Covid-19 smit. Ekki er talið að hann hafi verið í slíku samneyti við aðra farþega ferjunnar að hann hafi getað smitað út frá sér.Samkvæmt tölum á Covid.is eru nú tveir einstaklingar með virkt smit á Austurlandi og því í einangrun.
Fyrra smitið greindist á þriðjudag en síðara tilfellið var staðfest í gær. Þar er ferðamaður sem kom með Norrænu á fimmtudag og greindist jákvæður við landamæraskimun. Við mótefnamælingu kom í ljós að smitið væri nýtt.
Ferðafélagi mannsins er í sóttkví en ekki er talið að maðurinn hafi getað smitað aðra farþega um borð. Alls eru þrettán manns í sóttkví á Austurlandi, einum fleiri en í gær.
Íbúar fjórðungsins eru áfram minntir á persónulegar smitvarnir, að sinna handþvotti vel, nota spritt og halda tveggja metra fjarlægð.