Fáskrúðsfirðingar vilja fá að kjósa um fiskeldi

Nýrri stjórn íbúasamtaka Fáskrúðsfjarðar hefur verið falið að reyna að koma á kosningu meðal íbúa til að fá fram hug þeirra til fiskeldis í firðinum. Íbúar hafa miklar áhyggjur af mengun í firðinum frá eldinu en talsmenn eldisfyrirtækjanna segja rannsóknir sýna að hana þurfi ekki að óttast.

Ályktunin var samþykkt á aðalfundi íbúasamtakanna fyrir viku en hann var helgaður fyrirætlunum um fiskeldi í firðinum. Áætlanir eru um allt að 15 þúsund tonna eldi á vegum Laxa fiskeldis annars vegar og Fiskeldis Austfjarða hins vegar í firðinum.

Eldisáformin hafa mætt talsverðri andstöðu meðal heimamanna og margir fundargestir létu heyra duglega í sér á fundinum. Áhyggjurnar virðast snúast um mengun frá eldinu.

Forsvarsmenn Loðnuvinnslunnar, stærsta atvinnurekanda þorpsins, hafa verið þar í fararbroddi og var framkvæmdastjórinn, Friðrik Mar Guðmundsson, meðal frummælenda. Loðnuvinnslan sendi í byrjun desember frá sér yfirlýsingu þar sem eldisáformin voru gagnrýnd.

Upplýsingum breytt eftir yfirlýsingu Loðnuvinnslunnar

Byggt var á upplýsingum frá heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva en út frá þeim mátti reikna út að mengun frá eldinu jafngilti skólpmengun frá 120 þúsund manna byggð. Í kjölfar yfirlýsingarinnar var upplýsingunum og mátti þá reikna köfnunarefnismengun út frá 60 þúsund manna byggð. „Sumum þætti það alveg nóg,“ sagði Friðrik Mar.

Hann vísaði hins vegar í upplýsingar frá norsku umhverfisstofnuninni um að úrgangur frá 15 þúsund tonna eldi jafngildi skólpmengun frá 240 þúsund manna borg. Friðrik Mar gerði hins vegar kröfu um að fengnar yrðu upplýsingar frá hlutlausum aðila áður en ákvörðun yrði tekin. Hann sagðist kjósa að trúa Norðmönnunum vegna þeirra miklu reynslu.

Talsmenn fiskeldisfyrirtækjanna vísuðu ítrekað til þess að áformin rúmuðust innan burðarþolsmats sem sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hefðu unnið fyrir fjörðinn. Þeir sögðu einnig að gera yrði greinarmun á skólpmengun frá mannfólki og úrgangi fiskanna sem væri í raun næringarefni fyrir sjóinn, mest fosfór, nitur og köfnunarefni. Þá vildu þeir meina að úrgangur sem safnaðist saman undir kví hreinsaðist í burtu með straumum fjarðarins þegar kvíarnar yrðu hvíldar reglulega. Friðrik dró fullyrðingar um hreinsunina í efa þar sem norsku firðirnir væru mun dýpri en þeir íslensku.

Friðrik gagnrýndi einnig að upplýsingunum á heimasíðu fiskeldisstöðvanna hefði verið breytt án þess að vísa í heimildir. Slíkt væri ekki trúverðugt. Kristján Þ. Davíðsson, framkvæmdastjóri, tók á sig ábyrgðina og útskýrði að menn vildu hafa sem nákvæmastar upplýsingar. Síðan tækju menn það sem dygði.

Gunnar Steinn Gunnarsson, frá Löxum, sagðist í pallborðsumræðum eiga erfitt með að skilja umræðuna um mengunina, talað væri um lífræna mengun úr fiskifóðri eins og um stórhættulega vöru væri að ræða. Þá bætti hann við að niðurstöður frá 2015 eftir áratuga rannsóknir í tveimur norskum fjörðum, með annars vegar 60 þúsund tonna eldi og hins vegar 80 þúsund tonna, væru að ekki væri mælanlegur munur á fjörðunum fyrir eða eftir eldi.

Mun dýrara að fá leyfi fyrir eldi í Noregi

Forsvarsmenn Loðnuvinnslunnar hafa einnig staðsetningar eldiskvía, sagt þær ónákvæmar og geta þrengt að siglingaleiðum um fjörðinn. „Umfangið er frá því að vera lítið í að loka nánast firðinum,“ sagði Friðrik. Talsmenn eldisfyrirtækjanna sýndu kort af umferð um fjörðinn og sögðu að nægt rými ætti að vera fyrir bæði kvíarnar og skipin. Þá bentu þeir á að stærstur hluti kvíanna væri á að minnsta kosti átta metra dýpi, þær taki þar með minna pláss en líti út á sumum kortum.

Bæði Friðrik og fleiri fundargestir bentu á að eldisfyrirtækin, sem að mestu eru í eigu norskra fjárfesta, sýndu áhuga á að hérlendis fáist leyfi fyrir fiskeldi á nánast ekkert, sérstaklega á sama tíma og leyfi fyrir 15 þúsund tonna eldi í Noregi kosti 22 milljarða. Talsmenn eldisfyrirtækjanna svöruðu því að enginn áhugi hefði verið fyrir eldinu meðal íslenskra fjárfesta þrátt fyrir mikla leit.

Talsmennirnir Gunnar Steinn og Guðmundur Gíslason frá Fiskeldi Austfjarða, lögðu áherslu á atvinnusköpun sem yrði út frá eldinu. Ekki eingöngu skapist tugir starfa beint við eldið heldur verði til afleidd störf til dæmis meðal iðnaðarmanna, dýralækna og í opinbera geiranum. Þá séu möguleikar á fóðurframleiðslu sem færu vel saman við starfsemi Loðnuvinnslunnar. Friðrik Mar sagði að til þessa hefði verið næga vinnu að fá í Fjarðabyggð, þar með væri staðan þar önnur en víða annars staðar.

Gunnar Steinn sagði mikilvægt að Íslendingar framleiddu eins mikið og áhættumatið leyfði ef þeir ætluðu sér ekki að dragast aftur úr nágrannafyrirlöndunum. Guðmundur sagði að talsverð vinna hefði verið lögð í það hjá Fiskeldi Austfjarða að fá ýmsar umhverfisvottanir, til dæmis séu tvær vikur síðan sú síðasta frá Wholefoods bættist við.

Þeir sögðu að í eldið yrði notaður nýjasti og traustasti búnaður sem völ væri á. Eins vísuðu þeir ítrekað til þess að reynslan frá Noregi væri almennt jákvæð og þar væri vel fylgst með eldi.

Bæjarstjóri kvartaði yfir áhugaleysi

Fundargestir beindu einnig spjótum sínum að bæjaryfirvöldum í Fjarðabyggð sem þeir töldu ekki hafa staðið nægan vörð um hagsmuni heimabyggðarinnar. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, hafnaði því, minnti á að sveitarfélagið hefði ekki beina aðkomu að leyfisveitingum en hefði lagt mikla vinnu í umsagnir um umhverfismat og starfsleyfi. Sveitarfélagið hefði vissar áhyggjur af þróun mála.

Hann gagnrýndi heimamenn á móti fyrir að hafa sýnt lítinn áhuga fyrr en nýverið þótt fiskeldið hefði verið nokkur ár í undirbúningi. Dræm mæting hefði til dæmis verið á íbúafundi sveitarfélagsins um fyrirhugað eldi í Fjarðabyggð.

Þá hefði sveitarfélagið mótað sér sérstaka fiskeldisstefnu. „Bæjarstjórn hefur gert sitt besta til að upplýsa og taka inn þau atriði sem nefnd eru. Stefnan er ekki búin til í reykfylltu herbergi, umræðan var tekin í nefndum sveitarfélagsins. Við höfum haldið tvo stóra fundi um fiskeldi í Fjarðabyggð,“ sagði Páll Björgvin og beindi svo orðum sínum að Kjartani formanni, sem jafnframt er útgerðarstjóri Loðnuvinnslunnar. „Þú vaknaðir ekki fyrr en of seint til að ræða málin.“

Sluppu ekki þrátt fyrir gat

Íbúar á Fáskrúðsfirði lýstu talsverðum áhyggjum af öryggi kvíanna, bentu á að gat hefði komið í kvíar Laxa í Reyðarfirði nýverið og þar hefði einnig greinst nýrnasjúkdómur. Gunnar Steinn svaraði því til að sjúkdómurinn væri landlægur hérlendis og algengari í villtum laxi en eldi. Þá þekktist sú veiki ekki í norska eldinu.

Gunnar Steinn staðfest að gat hefði komið á kví á 29 metra dýpi en ekki hefði sloppið út fiskur. Því hefði verið fylgt eftir bæði af fyrirtækinu og Fiskistofu. Eftirlit með nótunum sé stíft, kafað sé niður að hverri þeirra mánaðarlega.

Ræðumanni vísað úr pontu

Meðal þeirra sem tóku til máls eftir að fyrirspurnir voru leyfðar var Óttar Ingvarsson, lögfræðingur sem starfað hefur fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands og ný samtök, Laxinn lifi, sem stofnuð voru til verndar villta íslenska laxastofninum. Hann gagnrýndi stjórnvöld fyrir andvaraleysi og að farið hefði verið á svig við reglur við útgáfu starfsleyfa.

Óttari var vísað úr pontu í þriðju tilraun, báðir fundarstjórar höfðu þá tvisvar áður bent honum á að sem fyrirspyrjandi gæti hann ekki haldið langa einræðu sem þá þegar hefði valdið því að salurinn hefði nánast tæmst en hann hundsaði ábendingar þeirra. Óttar svaraði því að honum hefði verið boðið á fundinn sem málsvara þeirra sem vildu vernda villta laxinn.

Fleirum fundargestum var mikið niðri fyrir og drógu margir yfirlýsingar fiskeldisfyrirtækjanna um öryggi kvíanna í efa. Mikið var spurt út í eftirlit með starfseminni og ferlið við leyfisveitingar en fulltrúar Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar voru meðal þeirra sem sátu í pallborðinu.

Unnið að nýjum lögum um fiskeldið

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra og fyrsti þingmaður kjördæmisins, sagði fiskeldi á Íslandi vera komið til að vera. Stefna ríkisstjórnarinnar sé að nýta tækifæri en ógna ekki líffræðilegum fjölbreytileika.

Hann sagðist ekki undrandi að skoðanir væru skiptar en bætti við að mikilvægt væri að taka umræðuna með rökum en ekki sleggju- eða hleypidómum. Kristján tók dræmt í hugmyndir um hvers konar kosningar sem hent var á loft með frammíköllum meðan hann talaði. „Ég vinn á grundvelli gildandi laga. Annað er ávísun á stjórnleysi.“ Það væri í höndum Alþingis að taka endanlegar ákvarðanir um lagaumgjörðina.

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi og formaður Sambands sjávarútvegssveitarfélaga ítrekaði að unnið væri að endurskoðun laga um fiskeldi og skipulag haf- og strandsvæða. Skilgreindir hefðu verið áherslupunktar í stefnumótun fiskeldisins og þar væri meðal annars komið inn á verndun umhverfis, tekjur af nýtingu svæða og skipulagsrétt sveitarfélaga.

Fjallað verður um fundinn í þættinum Landsbyggðir á sjónvarpsstöðinni N4 á fimmtudagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.