Félagsmönnum AFLs hefur fækkað um 6% vegna COVID
Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóri AFLs-Starfsgreinafélags segir að á heildina litið hafi greiðandi félagsmönnum AFLs fækkað um 336, eða um 6%, á tímum COVID, það er frá mars-júlí í ár miðað við sama tímabil í fyrra. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs segir ámælisvert að Vinnumálastofnun sinni ekki lögbundnu hlutverki sínu varðandi miðlun starfa.„Ef við leggjum þessa fækkun félagsmanna,sem stafar sennilega aðallega af því að miklu færri erlendir starfsmenn komu til landsins til að vinna í ferðaþjónustu, við aukið atvinnuleysi virðist fækkun starfa fyrir félagsmenn AFLs vera um 400 – 500 á þessum tíma,“ segir Sverrir Mar í samtali við Austurgluggann.
Ennfremur segir hann að launasumma félagsmanna AFLs hafi á milli þessara tímabila lækkað um 380 milljónir króna eða um 3,4%.
„Ef launasumma félagsmanna AFLs hefði hækkað í samræmi við meðalhækkun launavísitölu hefði summan átt að hækka um 1,5 milljarða í stað þess að lækka um tæpar 400 milljónir. Launalega séð getum við því metið samdráttinn á 13,7%,“ segir Sverrir Mar.
Vinnumálastofnun sinnir ekki miðlun starfa
Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLs segir að þau séu að reka sig á að fyrirtækin hafa í sumar verið að ráða til sín fólk erlendis frá, jafnvel fólk sem ekki hefur neina fyrri reynslu hérna, og það stendur nú uppi atvinnulaust og réttindalaust eftir stuttan starfstíma.
„Okkur finnst sérstaklega ámælisvert að Vinnumálastofnun skuli ekki sinna lögbundnu hlutverki sínu varðandi miðlun starfa,“ segir Hjördís.
Ennfremur segir hún að vinnumiðlun Vinnumálastofnunar geti ekki gengið upp nema fyrirtæki leiti til stofnunarinnar eftir starfsfólki og stofnunin helgi ákveðinn hluta af starfsemi sinni til vinnumiðlunar og vinnumarkaðsstarfa.
„Við viljum vekja athygli á því að fyrir um 15 árum var þetta hlutverk tekið af verkalýðsfélögunum og fært til Vinnumálastofnunnar. Því miður virðist stofnunin ekki hafa mannafla til að sinna hlutverkinu á tímum sem þessum. Fyrir nokkrum árum var tilraunaverkefni þar sem nokkur verkalýðsfélög tóku aftur við vinnumiðlun og vinnumarkaðsstarfi. Verkefnið gekk mjög vel en ekki reyndist áhugi á að halda því áfram,“ segir Hjördís.