Fimmtíu metra breitt snjóflóð í Hvalnesskriðum

Nokkur snjóflóð féllu á veginn í Hvalnesskriðum í nótt og lokuðu honum. Það stærsta var um fimmtíu metra breitt.


„Við fréttum bara af flóðinu þegar ruðningsbíllinn frá Djúpavogi kom í skriðurnar í morgun. Það fór yfir stálþil sem er þarna við grjótvörn,“ segir Reynir Gunnarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Höfn.

Hann segir 2-3 minni spýjur hafa fallið á veginn í skriðunum. Vestan við skriðurnar, inni í Hvaldal, féll einnig snjóflóð sem náði niður á veg.

Unnið er að því að opna veginn milli Hvalness og Hafnar en það hefur tafist vegna flóðanna. Veður er að ganga niður á svæðinu en það var mjög vont í gærkvöldi og nótt að sögn Reynis.

Enn er ófært til Borgarfjarðar, Seyðisfjarðar, Vopnafjarðar og yfir Möðrudalsöræfi en unnið er að mokstri um allt Austurland. Afar hvasst hefur verið á Vatnsskarðinu og mældist 49 metra hviða þar klukkan tvö í nótt.

Verulega hefur bætt á snjóinn eystra í nótt enda úrkoma mikil. Mest hefur hún verið undanfarinn sólarhring í Neskaupstað, 53,4 mm en 48,2 mm á Eskifirði og 40,1 á Ljósalandi í Fáskrúðsfirði.

Mynd: Vegagerðin

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar