Finnsk verðlaunaskúta í eigu þýsks auðjöfurs á Austfjörðum

Finnska skútan Hetarios hefur undanfarna daga siglt um Austfirði. Skútan er í eigu þýska auðjöfursins Otto Happel og skráð með heimahöfn á Caymann-eyjum. Hún hefur hlotið alþjóðleg verðlaun fyrir hönnun.

Hetarios kom til Seyðisfjarðar í gærdag frá Djúpavogi þar sem hún hefur verið í nokkra daga. Hún lét úr höfn á Seyðisfirði í morgun. Um borð er tveir farþegar og tíu manna höfn. Skútan er leigð út megnið af árinu en hún getur tekið allt að 12 farþega.

Rúnar Gunnarsson hafnarvörður á Seyðisfirði segir að farþegarnir um borð hafi verið þýskir en hann kann ekki frekari deili á þeim.

Otto Happel, sem kominn er yfir sjötugt, býr í Luzern í Sviss og er hann á lista Forbes tímaritsins yfir auðugustu menn heimsins. Hann er verkfræðingur að mennt og átti GEA Group sem framleiðir meðal annars bruggtæki og önnur tæki fyrir drykkjarvöruiðnaðinn. Auðæfi hans í fyrra voru metin á yfir 3 milljarða dollara eða nokkuð yfir 400 milljarða króna. 

Hetarios, sem er tæplega 67 metrar að lengd, er byggð í finnsku skipasmíðastöðinni Baltic Yachts í bænum Pietarsaari (Jakobstad) árið 2012. Sem fyrr segir hefur hún hlotið verðlaun fyrir hönnum Þannig hlaut hún m.a. World Superyachts Awards verðlaunin árið sem hún var byggð.

Mynd: Ómar Bogason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.