„Finnst ég alltaf nokkuð tengdur Norðfirðingum“

„Ég er löngu byrjaður ad telja niður dagana og undirbúningurinn er á fullu. Svo skilst mér að allt sé á kafi í snjó þannig að þetta verður kannski enn meira ævintýri fyrir mig sem hef ekki enn séð snjókorn í vetur,“ segir söngvarinn góðkunni Eiríkur Hauksson í samtali við Austurfrétt, en hann er einn þeirra listamanna sem kemur fram á tónleikunum „Jólin til þín“ sem haldnir verða víðsvegar á Austurlandi í desember.


Tónleikarnir Jólin til þín verða haldnir á tíu stöðum um land allt í desember og er það fyrirtækið Eastland-viðburðir sem sem skipuleggur alla tónleikaröðina.

„Um stórglæsilega tónleika er að ræða þar sem stuð og einlæg jólastemning tvinnast saman í ógleymanlega og skemmtilega kvöldstund. Það eru listamennirnir Eiríkur Hauksson, Regína Ósk Óskarsdóttir, Rakel Pálsdóttir og Unnur Birna Björnsdóttir færa þér jólin heim að dyrum ásamt hljómsveit skipaðri úrvals hljóðfæraleikurum,“ segir Jón Hilmar Kárason, en hann og Guðjón Birgir Jóhannsson standa að fyrirtækinu.

Tónleikarnir hér á Austurlandi verða á Djúpavogi 16. desember, Fáskrúðsfirði 18. desember, Neskaupstað 19. desember, Vopnafirði 20. desember og Egilsstöðum 21. desember.

Tónleikarnir marka upphaf jólanna í ár
Eiríkur flutti til Noregs árið 1988 og hefur búið þar síðan. Hann á góðar minningar frá Austurlandi.

„Sumarið 1978 bauðst mér og Sigurgeir Sigmundssyni gítarleikara að koma austur í Neskaupstað og starfa með hljómsveitinni Amon Ra. Við slógum til og þetta var mjög eftirminnilegur tími. Þarna voru fyrir snillingarnir Pétur Hallgrímsson á trommur og Skuggahlíðarbræðurnir Jón og Guðjón Steintþórssynir á bassa og gítar, auk hljómborðsleikarans Ágústs Ármanns Þorlákssonar, blessuð sé minning hans. Allt voru þetta frábærir félagar og sem betur fer hef ég átt þónokkra endurfundi með vinum mínum í Neskaupstað og finnst mér ég því alltaf nokkuð tengdur Norðfirðingum fyrir vikið,“ segir Eiríkur.

Hvað markar upphaf jólanna fyrir Eiríki? „Í ár verða það tónleikarnir Jólin til þín sem marka komu jólanna. Annars er það oft ekki fyrr en ilmurinn af Þorláksmessuskötunni berst í loftið að andinn kemur yfir mann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar