Fjarðarheiði væntanlega lokað í kvöld
Búist er við að veginum yfir Fjarðarheiði verði lokað seinni partinn í dag og ófært verði yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi eftir að þjónustu lýkur í kvöld.Þetta kemur fram í tilkynningu sem Vegagerðin sendi frá sér í hádeginu. Samkvæmt henni má búast við að heiðinni verði lokað um klukkan fimm í dag og verði þannig þar til annað kvöld.
Búist er við að leiðin yfir Öræfin verði opin fram undir klukkan hálf átta í kvöld þegar þjónustu lýkur. Allt veltur þó á hversu hratt gengur í það óveður sem spáð er og hve mikil úrkoma fylgi því. Óvissa er einnig um morgundaginn.
Leiðin yfir Fagradal ætti að verða opin í dag.
Snjóþekja hefur verið á Fjarðarheiði það sem af er degi og skafrenningur. Víða á Austurlandi er einnig flughált.