Fjögur austfirsk ungmenni spila í Hörpu á lokatónleikum Nótunnar

Þrjú atriði úr tónlistarskólum fjórðungsins komust áfram að loknum svæðistónleikum Nótunnar á Norður- og Austurlandi sem fram fóru í Hofi síðastliðinn föstudag. Þau atriði fara í lokakeppnina sem haldin verður í Eldborgarsal Hörpu 10. apríl næstkomandi.



Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskóla, fer nú fram í sjöunda sinn, en hún er samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Samtaka tónlistarskólastjóra, Tónastöðvarinnar, Töfrahurðar og Tónlistarsafns Íslands.

Fyrsti hluti uppskeruhátíðarinnar fer fram inn í tónlistarskólunum og felur í sér forval/tilnefningar á atriðum til þátttöku á svæðisbundna hluta hátíðarinnar. Annar hluti uppskeruhátíðar tónlistarskóla felst í svæðistónleikum og þriðji og síðasti hluti uppskeruhátíðar tónlistarskóla fer fram í formi lokahátíðar á landsvísu sem haldin er í Hörpu.


Ellefu atriði að austan tóku þátt í Hofi

Um 130 tónlistarnemendur tóku þátt í svæðistónleikum Nótunnar 2016 fyrir tónlistarskóla á Norður- og Austurlandi í Hofi.

Fjögur atriði fóru frá Tónlistarskólanum á Egilsstöðum, tvö frá Tónskólanum í Neskaupstað, tvö frá Tónlistarskóla Eski- og Reyðarfjarðar, tvö frá Tónlistarskóla Fáskrúðs- og Stöðvarfjarðar og eitt frá Tónlistarskóla Vopnafjarðar.

Þau þrjú atriði sem komust áfram og keppa til úrslita í Hörpu í apríl eru:

  • Írena Fönn Clemmensen frá Tónlistarskólanum í Neskaupsstað, en hún  flytur lagið Á hafsbotni.
  • Anya Hrund Shaddock, píanóleikari og trommuleikarinn Anton Unnar Steinsson frá Tónlistarskóila Fáskrúðs- og Stöðvarfjarðar, en þau fluttu lagið My Favorite Things, sem þau sjálf útsettu. 
  • Kristófer Gauti Þórhallsson, fiðluleikari og meðleikarinn Zigmas Genutis frá Tónlistarskólanum á Egilsstöðum. Þeir fluttu verkið Thais Meditation. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar