„Fjölskyldan aldrei skemmt sér eins vel yfir veðurfréttunum“

„Ég bjóst við fimm lækum og einni deilingu,“ segir Eiður Ragnarsson á Djúpavogi um þau viðbrögð sem fréttin um örvhenta veðurfræðinginn hlaut í gær þegar hún lenti meðal annars á fréttasíðu BBC.



Austurfrétt tók viðtal við Eið eftir að hann birti stöðufærslu á Facebook-síðu sinni svo hljóðandi; „Gengur á með jakkafötum og hvítri skyrtu austanlands næstu daga.“

Í fréttinni segir Eiður; „Þetta er kannski óþarfa tuð og vel er hægt að skoða veðrið annarsstaðar, en svona fyrst þessi dagskrárliður er í sjónvarpinu þá finnst mér það lágmarks tillitssemi að hægt sé að gjóa augunum á helstu atriði eins og hitatölur og vind í sínum fjórðungi,“ segir hann og bætir því við að þessi tilhneiging veðurfréttamanna á RÚV hafi verið slæm síðustu misseri en hafi líklega náð hámarki í gærkvöldi. „Maðurinn stóð alveg fyrir landshlutanum í gær, gamla austfjarðakjördæmið sást aldrei allan veðurfréttatímann.“ Alla fréttina má lesa hér.

Fljótlega fóru netheimar að loga og flestir netmiðlar landsins og fleiri til þótti fréttin áhugaverð. Vísir var með fyrirsögnina; Austfirðingar argir; „Ég vil örvhentan veðurfræðing“, mbl.is tók setningu Eiðs; Gengur á með jakkafötum og hvítri skyrtu og Reykjavík síðdegis var með málið sem sitt fyrsta umfjöllunarefni þáttarins, en hlusta má á það hér.


Austurfrétt á síðu BBC

Síðdegis hafði BBC fréttastofa samband við Eið. „Fyrst hélt ég að þetta væri eitthvað grín,“ sagði Eiður um hringinguna. „Þau spurðu hvort ég stæði fyrir mótmælum en ég sagði að það væri alls ekki svo, þetta hefði nú bara verið tilraun til hópfyndni og örlítillar aðfinnslu í leiðinni. Ég held að pistillinn þeirra hafi breyst ansi mikið eftir símtalið, hann var bæði dannaður og hógvær,“ segir Eiður. Frétt BBC má lesa hér.


Tekur við tillögum að næstu byltingu

Eiður segir að fátt annað hafi verið rætt við sig eftir að fréttin fór í loftið og nokkur spenna hafi verið fyrir veðurféttirnar gærkvöldsins, skilaboðin rötuðu rétta leið og veðurfréttamaðurinn stóð megnið af tímanum vinstra megin við kortið, eitthvað sem ekki hefur áður gerst. Bjóst Eiður við þessu?

„Nei, alls ekki. Í mesta lagi því að hann færði sig bara örlítið meira til hægri. En, fjölskyldan hefur í það minnsta aldrei skemmt sér eins vel yfir veðurfréttunum og í gær, það er alveg á hreinu.“

Aðspurður hvort Eiður sé farinn að undirbúa næstu byltingu segir hann; „Nei, ekki enn, en ég tek við tillögum.“


BBC uppfærði fréttina


BBC birti svo uppfærða frétt í morgun þar sem greint er frá árangrinum „mótmælanna“, en þá frétt má lesa hér.

RÚV sendi svo frá sér svohljóðandi yfirlýsingu í gærkvöldi; „Kæru Austfirðingar, svona bæta menn fyrir mistökin. Við biðjum ykkur að sýna okkur þolinmæði meðan unnið er að varanlegri lausn, en til stendur að veðurkortið verði ávallt sýnilegt um allt land allan tímann. Veðurfræðingar okkar gera sitt allra besta til að vera ekki fyrir í millitíðinni svo enginn þurfi að gera veður út af þeim á meðan!“


Vísir sló svo á létta strengi þar sem segir frá atvinnuauglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem auglýst er eftir örvhentum og ólygnum veðurfræðingi og honum lofað tíföldum launum. Fréttina má lesa hér.

 

Veðurfréttamaður á RÚV

 

15622093 1247378125347385 4919116424952869199 n

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.