Fjórar fjölskyldur á flótta á leið til Fjarðabyggðar

Fjórar flóttamannafjölskyldur eru væntanlegar til Fjarðabyggðar um miðjan næsta mánuð. Félagsmálastjóri segir samfélagið vel í stakk búið að taka á móti fólkinu og spennt fyrir að kynnast því.

Von er á fjórum fjölskyldum, alls 19 manns. Fólkið kemur frá Írak en hefur að undanförnu dvalist í flóttamannabúðum í Jórdaníu. Fólkið er hluti af kvótaflóttafólki sem kemur til Íslands á árinu.

Upphaflega stóð til að fimm fjölskyldur kæmu en vegna breyttra forsenda fær fimmta fjölskyldan ekki dvalarleyfi á Íslandi.

Stefnt er að því að fjölskyldurnar komi til landsins 15. febrúar. „Við göngum út frá þeim degi samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum. Við erum full tilhlökkunar að kynnast þessum fjölskyldum og taka á móti þeim,“ segir Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir, félagsmálastjóri.

Fjölskyldurnar verða að líkindum búsettar á Reyðarfirði og í Neskaupstað.

Teljum okkur vel í stakk búin

Helga Elísabet segir að öll sú þjónusta sem fjölskyldurnar þurfi á að halda sé til staðar í Fjarðabyggð. „Velferðarráðuneytið veit að við höfum það sem til þarf og leitar til okkar, meðal annars þar sem bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur lýst yfir vilja til að taka á móti flóttafólki.

Við teljum okkur vel í stakk búin til að taka á móti flóttafólki, við höfum höfum góða grunnþjónustu, og aðra þjónustu sem fólk þarf á að halda og síðast en ekki síst erum við gott samfélag. Flóttamannanefnd hefur viðmiðunarreglur um hvers konar þjónusta þarf að vera til staðar og við erum vel fær um að veita hana.

Eitt af því sem er mikilvægt að gera í byrjun er að veita fræðslu um samfélagið og íslenskukennslu með það að markmiði að fólkið aðlagist íslenskum aðstæðum sem best. Þegar fólk er komið með grunnskilning á menningunni og tungumálinu er það betur í stakk búið að demba sér út í samfélagið. Það gerist ekki fyrstu vikuna.“

Rauði krossinn leikur stórt hlutverk

Sveitarfélagið kom í fyrra að sameiningu fjölskyldu á flótta. „Reynslan af vinnunni með þeirri fjölskyldu hefur kennt okkur mjög mikið,“ segir hún.

Sveitarfélagið stendur ekki eitt að móttökunni. „Rauði krossinn leikur stórt hlutverk í móttökunni, einkum hvað varðar aðlögun að samfélaginu með að útvega stuðningsfjölskyldur sem eru tengiliðir út í samfélagið.“

Mynd úr safni Rauða kross Íslands. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.