Fljótsdalshérað biðst afsökunar á aflífun kattar

Ekki var farið eftir lögum og reglum þegar dýraeftirlitsmaður sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs aflífaði kött sem hann fjarlægði af heimili á Egilsstöðum í byrjun síðustu viku.

Húsráðandi á Egilsstöðum óskaði aðfaranótt mánudagsins í síðustu viku eftir að villiköttur sem angrað hafði heimilisfólk með nærveru sinni í nokkra daga yrði fjarlægður af heimilinu.

Í yfirlýsingu Fljótsdalshéraðs segir að á mánudagskvöldinu hafi kötturinn verið aflífaður þar sem ekkert hefði verið spurst fyrir um dýrið og það verið dögum saman á heimilinu.

Samkvæmt reglum um velferð gæludýra er dýralæknum einum heimilt að aflífa dýr, nema fullreynt sé að ná í einn slíkan og ætla megi að sjúkdómur eða meiðsl valdi dýrinu óbærilegum kvölum.

Þá segir í samþykkt í samþykktum um kattahald að þegar ómerktur köttur sé handsamaður sé sveitarfélagi heimilt að ráðstafa kettinum til nýs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta eftir tvo sólarhringa frá handsömun.

Ljóst er að hvorugt skilyrðið var uppfyllt í þessu tilfelli.

Í yfirlýsingu sem Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, sendi frá sér vegna málsins í gær, segir ljóst að ákvörðun dýraeftirlitsmannsins brjóti í bága við reglur sveitarfélagsins um föngun og vörslu katta. Sveitarfélaginu þyki miður að ekki skuli hafa verið breytt samkvæmt settum reglum og farið verði sérstaklega yfir verkferla varðandi mál af þessu tagi til að tryggja að þau endurtaki sig ekki.

Ekki fyrsta dæmið

Aflífunin hefur vakið hörð viðbrögð víðar en á Héraði. Í frétt DV um málið var sagt frá öðru máli þar sem ekki hefði farið að settum reglum við aflífun kattar á Fljótsdalshéraði. Þar fer eigandi hins sex mánaða gamla kattar fram á öðrum starfsmanni verði falið dýraeftirlit á Fljótsdalshéraði.

Þar var einnig rætt við dýraeftirlitsmanninn sem kannaðist ekki við ákvæðin í reglugerðunum og taldi sig hafa starfað samkvæmt heimilda.

Í yfirlýsingu sem Kattavinafélag Íslands sendi frá sér í dag eru vinnubrögð eftirlitsmannsins átalin og sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs hvött til að bregðast við af fullri ábyrgð. Jafnframt hvetur félagið öll sveitarfélög í landinu og Matvælastofnun til að vanda val á starfsmönnum sem ráðnir eru í dýraeftirlit.

Nauðsyn að skrá og merkja ketti

Kötturinn sem var aflífaður var hvorki með ól með örmerkinu. Sveitarfélagið ítrekar að gæludýraeigendur skrái dýrin sín og láti örmerkja þau en samkvæmt samþykktum skal skrá ketti í þéttbýli innan tveggja vikna frá því að köttur er tekinn inn á heimili. Sé skráður og merktur köttur handsamaður sé undantekningalaust haft samband við eiganda.

„Þetta afsakar þó ekki að skuli hafa verið farið af settum reglum af hálfu sveitarfélagsins og harmar það að málið skyldi fara á þennan veg og eru hlutaðeigandi hér með beðnir afsökunar á því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.