„Fólk þarf alls ekki að hræðast sameiningar“

Rauðakrossdeildin á Vopnafirði hefur nú sameinast við deildina Héraði og Borgarfirði eystra og ber nýja deildin nafnið Rauði krossinn í Múlasýslu. Formaður deildarinnar á Vopnafirði segir sameininguna efla báðar deildir.



Stofnfundur þessarar sameinuðu deildar var haldinn á Bókakaffinu Hlöðum í Fellabæ þann 29. október en sameiningin gengur formlega í gildi þann 1. janúar næstkomandi. Guðný Björnsdóttir frá Landsskrifstofu Rauða krossins og Sveinn Kristinsson, formaður samtakanna, mættu á fundinn ásamt stjórnarmönnum deildanna og sjálfboðaliðum.

Starfssvæði deildarinnar markast af Vopnafirði, Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystra. Deildarstjórnin verður fimm manna og allt að fjórir í varastjórn. Þrír stjórnarmenn skulu koma frá Héraði, einn frá Vopnafirði og einn frá Borgarfirði eystra. Varamenn eru boðaðir á stjórnarfundi og hafa málfrelsi og tillögurétt. Varamenn skiptast þannig að tveir eru frá Héraði, einn frá Borgarfirði og einn frá Vopnafirði.

Frumkvæðið kom frá Vonafirði
Frumkvæði að sameiningunni kom frá deildinni á Vopnafirði. „Starfið hjá okkur var búið að vera í lægð í nokkurn tíma og því tilvalið að sameinast þessum deildum og efla þannig starfið innan þeirra beggja,“ segir Sölvi Kristinn Jónsson, formaður Rauðakrossdeildarinnar á Vopnafirði.

Sölvi Kristinn segir að sameingarferlið muni í heildina taka heilt ár. „Það þarf að leggja tillöguna fyrir aðalfund, bæði hér á Vopnafirði og á Egilsstöðum. Þetta er núna á lokametrunum, sameiningarfundurinn er afstaðinn en hin nýja deild hefur formlega starfsemi strax á nýju ári“.

„Á svona litlum stöðum eru allir í öllu“
Sölvi Kristinn segir helstu verkefni deildarinnar hafa verið í kringum fatagáminn, skyndihjálparnámskeið, neyðaraðstoð og svo jólaaðstoð, sem hann segir að sé sem betur fer lítil þörf á, en þurfi þó að vera til staðar. „Á svona litlum stöðum eru allir í öllu sem áhuga hafa á þessum málum. Við erum með sterka slysavarnardeild hér á Vopnafirði, sem og björgunarsveit. Einnig er öflugt kvenfélag á staðnum og því kannski er fólk í nægu og lítið hefur orðið úr Rauðakrossdeildinni. Með sameiningunni tel ég að við styrkjum deildina til muna og starfið eflist með stærri einingu.

Fólk þarf alls ekki að hræðast sameiningar og ég held að þetta sé það sem koma skal, enda ekkert vandamál með nútíma tækni. Deildirnar munu funda reglulega saman og núna erum við að fara að móta okkar stefnu og semja verkáætlun. Eftir áramót förum við svo af stað með einhver verkefni.“

Ljósmynd: Skarphéðinn Þórisson. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar