Fólkið á Borgarfirði vill hafa búð

Sjö milljónum króna úr verkefninu Betri Borgarfjörður var nýverið úthlutað til fimmtán samfélagseflandi verkefna á Borgarfirði eystra. Það var Búðin Borgarfirði sem hlaut hæsta styrkinn að þessu sinni, en verslunin hóf rekstur í júlí síðastliðnum.


Styrkirnir eru hluti af verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir, en þetta er fyrsta úthlutunin. Verkefnið miðar að því að auka þekkingu og getu íbúa byggðarlaga til að móta framtíðarsýn, markmið og lausnir. Enn fremur að virkja frumkvæði og samtakamátt íbúa og auka vitund þeirra um eigin þátt í þróun samfélagsins.

Alls bárust 18 umsóknir en það voru fimm konur og sjö karlar sem hlutu styrki. Verkefnin sem hlutu styrki eru fjölbreytt en heildarlista þeirra má sjá hér.

Áætlaður heildarkostnaður verkefna er um 41 milljón króna en sótt var um styrki fyrir 17 milljónir króna.

 

Styrkurinn skiptist í þrennt

Eins og segir í inngangi var það Búðin Borgarfirði sem hlaut hæsta styrkinn, eða 1,8 milljón króna. Í fréttatilkynningu segir að fram hafið komið á íbúafundi á Borgarfirði síðasta vetur að efst á forgangslista væri að opna aftur verslun og því sé afar ánægjulegt að geta stutt myndarlega við það verkefni.

Christer Magnússon er framkvæmdarstjóri rekstrarfélagsins Gusa ehf, sem rekur Búðina á Borgrfirði eystra. Upphæðin til hennar skiptist í þrennt. Uppfærsla rekstrartækja hlaut 800.000 krónur, geymsluhúsnæði 500.000 krónur og rekstrarráðgjöf 500.000 krónur.

„Við sem tókum reksturinn að okkur erum öll ný í þeim geira. Okkur þótti því nauðsynlegt að við myndum afla okkur þekkingar varðandi hvernig best væri að standa að slíkum rekstri. Styrkurinn gerir okkur því kleift að kaupa ráðgjöf sem við teljum að komi til með að styrkja Búðina á allan hátt.

Annar hluti styrktins var svo til kaupa á rekstrartækjum, en við erum til dæmis að panta nýjan frysti núna sem kemur til með að vera í búðinni, en hingað til hefur frystivara bara verið í frystikistum í geymslunni. Það verður allt annað að viðskiptavinir geti fengið að sjá vöruúrvalið betur. Þá munum við einnig kaupa fleiri hillur til þess að geta komið vörunum fyrir á sem bestan hátt,“ segir Christer.

„Við höfum selt meira en ég reiknaði með“
Búðin er opin þrisvar í viku í vetur en opnunartíminn mun verða meiri kringum jól og áramót. Hvernig hefur reksturinn gefist það sem af er?

„Það er of snemmt að segja alveg til um það, við sjáum það betur þegar við gerum árið upp. Við höfum þó selt meira en ég reiknaði með þannig að salan hefur gengið vel. Við vorum undir það búin að veturinn yrði erfiður en okkur hefur verið tekið mjög vel. Fólkið á Borgarfirði vill hafa búð, það hefur líka virkilega sýnt það í verki með því að versla í búðinni.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.