Forsetaefnið: Ásdís Rán Gunnarsdóttir

Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.

Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Austfirðingar eru þannig að þeir láta ekki segja sér hvað þeir eiga að kjósa en ég veit að þeir eru djarfir og alltaf tilbúnir til að ryðja brautir breytinga auk þess sem þeir standa með sínu fólki. Foreldrar mínir eru Austfirðingar og ég á mikið af frændfólki bæði á Héraði og fjörðunum, auk þess sem ég átti ung mjög góð ár á Höfn. Enginn annar frambjóðandi hefur jafn sterk tengsl við Austurland og ég og er ekki kominn tími til að Austfirðingar eigi sinn fulltrúa á Bessastöðum?

Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Það er það sem við eigum öll sameiginlegt, menning okkar og saga, landið og náttúra þess, náttúruauðlindir og mannauðurinn sem í þjóðinni býr því saman erum við hjarta og sál þjóðarinnar.

Af hverju á fólk að treysta þér?
Ég er í eðli mínu hreinskilin og hef enga þörf fyrir að breiða yfir eitt eða neitt í lífi mínu. Tengsl mín við stjórnmál og hagsmunahópa eru nánast engin og ég er því vel í stakk búin að gæta hlutleysis í starfi. Reynsla mín af því að starfa og vera í sviðsljósi erlendis mun nýtast vel í gestgjafahlutverki á Bessastöðum og á alþjóðavísu. Mestu skiptir þó að ég bý yfir mjög einlægum áhuga á því að efla samstöðu og jákvæðan baráttuanda á meðal þjóðarinnar, hvetja til góðra verka í þjóðfélaginu og tala fyrir mikilvægum málefnum.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Það eru staðir og bæjarfélög um allt Austurland sem heilla mig en svo ég nefni stað sem er sérstaklega tengdur mér þá er það útivistar- og skógræktarsvæði fjölskyldunnar við Ekkjuvatn í Fellum, sem við köllum Friðsæld og er dásamlegur staður.

Hver er þín uppáhaldsminning frá Austurlandi?
Hún er þegar snjóaði svo hressilega að ég þurfti að grafa mig út úr húsinu okkar í Fellabæ og snjórinn var svo mikill að ég gat farið upp á þak og stokkið fram af húsinu. Svo er það ógleymanlegt þegar ég vaknaði einn morguninn við að hreindýr voru á beit í garðinum og var djúpt snortin enda mikill dýravinur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar