Forsetaefnið: Ástþór Magnússon

Á morgun verður nýr forseti Íslands kosinn. Í aðdraganda kosninganna sendi Austurfrétt/Austurglugginn öllum frambjóðendum fimm spurningar.

Af hverju eiga Austfirðingar að kjósa þig?
Ef fólk kýs ekki mig þá er það að kasta atkvæði sínu á ófriðarbálið. Engu máli skiptir hvern af hinum ellefu fólk kýs. Þeir frambjóðendur eru allir tilbúnir til að standa með kjósendum í stríði, en ég er ekki tilbúinn í það. Ég vil sem forseti vinna til friðar og mitt fyrsta verkefni verður að leita friðarsamninga við Rússa sem hafa að undanförnu skilgreint Íslendinga sem óvinaþjóð og hernaðarsérfræðingar telja að séu að skipuleggja árás á norðurslóðir, jafnvel með kjarnorkuvopnum.
Kjósendur eiga ekki að kasta atkvæði í fólk sem ætlar að stimpla hvaða vitleysu sem er frá Alþingi. Hlutverk forseta er að vera öryggisvörður þjóðarinnar, hann er þjóðkjörinn fulltrúi þjóðarinnar og á að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar á Bessastöðum.

Hvað er það sem sameinar þjóðina að þínu mati?
Smæð þjóðarinnar

Af hverju á fólk að treysta þér?
Allt sem ég hef spáð fyrir um hefur ræst. Ég spáði fyrir um efnahagshrunið í fyrsta forsetaframboðinu, 1996 vildi ég að forseti nýtti málskotsréttinn fyrstur manna, varaði við stríðsátökum í Evrópu og sérstaklega við yfirvofandi stríði við Rússland í framboðinu 2016. Ég tel mig lesa vel bæði í innanlands- og alþjóðamál og verð traustur forseti með framtíðarsýn á Bessastöðum.

Hver er þinn uppáhaldsstaður á Austurlandi og af hverju?
Hallormsstaðaskógur finnst mér mjög skemmtilegur og kom þangað oft með foreldrum mínum sem barn.

Hver er þín uppáhaldsminning frá Austurlandi?
Mér þótti ánægjulegt hve vel tekið var á móti mér í álverinu á Reyðarfirði þegar ég kom þar að safna undirskriftum árið 2016.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar