Forstjóri Norrænu segir ástandið skelfilegt

Linda Björk Gunnlaugsdóttir forstjóri Norrænu segir að ástandið sé skelfilegt hjá þeim hvað farþegafjölda varðar í kjölfar hinna hertu COVID reglna og hvernig sumir farþeganna þurfa að bregðast við. Aðeins eru 190 farþegar um borð í ferjunni á leið til Íslands og fækkar sennilega í Færeyjum. Á sama tíma í fyrra voru þetta að jafnaði 1.100 til 1.300 farþegar sem komu í hverri ferð yfir sumarið. Ferjan kemur á morgun, fimmtudag, til Seyðisfjarðar.

„Það var mjög stuttur fyrirvari gefinn á þessum hertu reglum og frá því að þær voru tilkynntar síðastliðinn föstudag er fjöldi farþega búinn að afbóka sig. Norræna er sem stendur í Færeyjum og sennilega munu margir sem ætluðu til Íslands snúa við þar og koma ekki,“ segir Linda í samtali við Austurfrétt. „Það er gagnrýnivert hve skammur fyrirvari var gefinn með þessar reglur af hálfu stjórnvalda.“

Hvað sóttkví varðar segir Linda að Norræna lendi ekki í að útvega farþegum pláss. „Flestir farþegana eru á eigin vegum og þurfa að sjá um sína sóttkví sjálfir,“ segir Linda. „En fyrir þá sem eru með húsbíla er þetta mjög snúið. Þeir mega ekki vera á tjaldstæðum og ekki nota almenningssalerni. Þannig að þeir verða að koma sér eitthvert annað.“

Fram kemur í máli Lindu að þau hjá Norrænu hafi verið hóflega bjartsýn á sumarið framan af. Þannig hafi að jafnaði verið 600 til 800 farþegar í hverri ferð í júní. Nú eru þeir eins og fyrr segir 190 talsins. Linda segir að þau viti ekki fyrr en í kvöld hve margir af þessum 190 muni stoppa í Færeyjum og snúa aftur til Danmerkur í stað þess að koma til Seyðisfjarðar.

Aðspurð um hvort þetta ástand hafi einhver áhrif á áætlun Norrænu segir Linda svo ekki vera. „Vöruflutningar hafa ætíð verið uppistaðan í siglingum okkar yfir veturinn þannig að áætlun okkar stenst eftir sem áður,“ segir Linda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.