Fortitude; Talsverðar líkur á þriðju seríu

Tökum á fyrri hluta annarrar þáttaseríu Fortitude lauk í síðustu viku en tökur á seinni hlutanum verða í apríl.



Tökur hafa staðið yfir frá því í byrjun febrúar og hafa að mestu farið fram á Reyðarfirði, en einnig talsvert á Eskifirði, Seyðisfirði og á Fjarðarheiði. Kvikmyndafyrirtækið Pegasus hefur annast tökurnar hér á landi í samstarfi við Sky Atlantic og fleiri aðila.


Tökur hafa gengið vel

Einar Sveinn Þórðarson, einn eigenda Pegasus, segir að búast megi við jafn fjölmennum hópi starfsmanna við tökur á seinni hluta seríunnar.

„Tökulið ásamt leikurum kemur aftur í byrjun apríl og tökum líkur í lok þess mánaðar. Um 150 manns hafa verið beinir þátttakendur í tökunum þegar mest var í febrúar, þar með talið tökulið, leikarar, framleiðendur og tæknimenn.

Tökurnar hafa gengið mjög vel. Við fengum sem betur fer meiri snjó en síðast, en þó hefur veðrið truflað okkur lítillega. Í heildina litið hefur þetta gengið mjög vel hjá okkur og eru framleiðendur gríðarlega ánægðir með þær tökur sem við höfum náð fram til þessa,“ segir Einar.


Þakklát fyrir gott viðmót íbúða

„Íbúarnir hafa tekið okkur gríðarlega vel og við erum orðlaus yfir allri þolinmæðinni og góðvildinni sem íbúar hafa sýnt okkur. Það vilja allir hjálpa til við að gera okkur þetta sem auðveldast. Við erum mjög þakklát fyrir það góða viðmót sem við höfum fengið hér og það hefur auðveldað alla okkar vinnu mjög. Okkur hefur liðið mjög vel hérna fyrir austan og flestir þeirra sem tóku þátt í fyrstu seríunni vildu hiklaust koma aftur,“ segir Einar.


Ekkert formlegt liggur fyrir ennþá

Þegar Einar er spurður út í framhaldið segir hann; „Það er mjög erfitt er að segja til um það á þessari stundu hvort þriðja sería þáttanna verði gerð. Það eru þó talsverðar líkur á því, en of snemmt sé að segja til um það með vissu, þar sem ekkert formlegt liggur fyrir um það ennþá.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.