Fótbolti: Tíu mörk skoruð þegar KFA vann Reyni Sandgerði

Alls voru tíu mörk skoruð þegar KFA vann Reyni Sandgerði 7-3 í annarri deild karla um helgina. Höttur/Huginn náði jafntefli í Þorlákshöfn með marki í uppbótartíma.

Sverrir Þór Kristinsson skoraði fyrsta markið í leik KFA gegn Reyni strax á annarri mínútu. Gestirnir jöfnuðu á 25. mínútu en Abdelkadi Khalok El Bouzarrari kom KFA aftur yfir á 32.

Kristófer Páll Viðarsson, fyrrum leikmaður Leiknis, jafnaði aftur fyrir Reyni en Julio Cesar Fernandes tryggði 3-2 forustu í hálfleik með marki á 42. mínútu.

Um miðjan seinni hálfleik skoruðu þeir Abdelhadi og Matheu Bettio Gotler sitt marki hvor með stuttu millibili og Sverrir Þór gætti einu við fjórum mínútum síðar. Patrekur Aron Grétarsson skoraði sjöunda mark KFA á 88. mínútu.

Höttur/Huginn var 2-0 undir í hálfleik gegn Ægi í Þorlákshöfn. Árni Veigar Árnason minnkaði muninn á 72. mínútu og Hjörvar Sigurgeirsson jafnaði á fyrtu mínútu uppbótartíma.

Í A-riðli 5. deildar karla gerði Spyrnir 1-1 jafntefli við Álafoss á Fellavelli. Bjarki Nóel Brynjarsson kom Spyrni yfir á 29. mínútu en gestirnir jöfnuðu úr víti á 88. mínútu.

Austfirsku kvennaliðin hafa átt betri helgar. Í Lengjudeildinni tapaði FHL 6-1 fyrir HK. Björg Gunnlaugsdóttir kom FHL yfir á 9. mínútu en eftir það tók Kópavogsliðið öll völd.

Einherji tapaði 0-3 fyrir Völsungi á föstudagskvöld í annarri deild. Öll mörkin komu í seinni hálfleik.

Matehu Gotler skorar fyrir KFA. Mynd: Jón Guðmundsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar