Frá Cherkasy til Borgarfjarðar
Iryna Boiko flutti til Borgarfjarðar eystra fyrir sjö árum úr úkraínskri stórborg til að geta búið með manninum sínum sem fékk þar atvinnu. Hún segir Borgfirðinga hafa tekið sér opnum örmum en vildi gjarnan að þeir væru fleiri.„Ég kom til Íslands 5. september 2011. Við bjuggum fyrstu fimm mánuðina í Laufási, stóru húsi. Þegar ég kom þangað fyrst vildi ég læsa húsinu en maðurinn minn sagði að þess þyrfti ekki. Okkur finnst þetta fyndið núna en í Úkraínu þarftu marga lása því þar er mikið um glæpi,“ segir Iryna í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.
Iryna og maður hennar Sergei eru bæði alin upp í Cherkasy, 280 þúsund manna borg í miðju Úkraínu. Sergei er með eistneskt vegabréf og kom þremur áum á undan Irynu til að vinna á Borgarfirði.
Eftir að eldri dóttir þeirra fæddist árið 2010 vildi fjölskyldan búa öll á einum stað. Iryna segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að flytja til Borgarfjarðar og hefur aðeins tvisvar farið til heimalandsins síðan. Þaðan berast almennt ekki góðar fréttir.
„Það er erfitt að fá vinnu í Úkraínu og launin eru ekki góð. Ég fylgist ekki mikið með fréttum frá Úkraínu. Ég heyri bara um bílslys og morð. Ég nenni ekki að heyra af því.“
Má ekki vera feiminn við að tala íslenskuna
Iryna vinnur í Fiskvinnslu Karls Sveinssonar á veturna og Álfacafé á sumrin. Hún hefur náð ágætum tökum á íslenskunni. „Mér fannst íslenskan erfið fyrst. Hér töluðu allir íslensku við mig og ég skildi ekki neitt. Núna finnst mér hún nánast auðveld. Þetta er lítið samfélagið og fólkið er gott og talar íslensku við mig.
Ég spyr líka út í ýmis orð og fletti upp í orðabók og skrifa niður áður en ég til dæmis hringi símtöl. Íslenskan mín batnaði mikið eftir að dóttir mín byrjaði í grunnskóla. Þá fór ég að lesa fyrir hana og bætti miklu við orðaforðann. Allt í einu kom bara miklu meira.
Það hafa allir sagt mér að það sé ekki auðvelt að læra íslensku en ég veit að það tekst, bara ekki strax. Maður má ekki vera feiminn heldur bara byrja að tala.“
Fyrsti veturinn erfiðastur
Hún viðurkennir að íslenskir vetur geti vissulega verið dimmir og kaldir en hún hafi vanist því eftir fyrsta veturinn. Hún kann líka vel við sig í náttúrunni á Borgarfirði.
„Mér finnst hljóðlátt hér og náttúran falleg. Okkur finnst gaman að fara út í gönguferðir. Við fórum í sumar til Brúnavíkur. Það var sex klukkutíma gönguferð en samt skemmtileg.“
Þarf fjölbreyttari atvinnu til að fjölga fólki
Eldri dóttir Sergei og Irynu er eina stelpan í fjögurra barna grunnskóla á Borgarfirði. „Það sem mér finnst erfiðast við að búa hér er að það er ekki mikið við að vera fyrir börnin, til að þroskast og eiga vini. Dóttir mín er eina stelpan í grunnskólanum en þar eru þrír strákar. Það er samt gott að að einu sinni í viku fara krakkarnir héðan í Fellaskóla og finnst það gaman. Kennslan hér er góð og dóttir mín er ánægð í skólanum. Ef henni líður vel, þá líður mér vel.
Yngri dóttirin, er á leikskóla. „Þar eru bara þrjú börn en stundum bætast við krakkar frá Egilsstöðum og Reykjavík. Þegar ég kem að sækja hana í lok dags segir hún mér yfirleitt hvað henni hafi þótt gaman.“
Til að styrkja samfélagið hefur Iryna tekið þátt í verkefnum eins og „Að vera valkostur“ sem miðaði að uppbyggingu samfélagsins á Borgarfirði. „Við þurfum að fjölga íbúum, einkum börnum, þannig þau geti gert eitthvað skemmtilegt saman.
Mér finnst vanta meiri atvinnu. Hvort sem er um að ræða fiskvinnsluna eða ferðamennskuna þá er vinnan yfirleitt tímabundin. Hér er mikið að gera á sumrin og þá kemur margt fólk en aðra mánuði vantar vinnu. Ef við eflum atvinnuna þá fjölgar fólki og það fer að byggja sér hús.“