Framkvæmdaáætlun ekki meitluð í stein eins og töflurnar sem Móses kom með af fjallinu
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð gagnrýna frestun á stækkun leikskólans á Eskifirði í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins. Fulltrúar meirihlutans segja framkvæmdaáætlun lifandi skjal sem breytist eftir þörfum og fjárhag.Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar lýsti á síðasta fundi bæjarstjórnar vonbrigðum yfir að framkvæmdir við leikskólann á Eskifirði séu ekki á dagskrá fyrr en árið 2021.
Ragnar sagði að gefin hefðu verið loforð um að hefja stækkun leikskólans árið 2020, strax eftir að stækkun leikskólans á Reyðarfirði væri lokið. Upphaf framkvæmdanna miðist nú við þegar lóðaframkvæmdum á Reyðarfirði verið lokið en þær hafi verið skildar frá stækkuninni.
Hann lýsti einnig vonbrigðum yfir að einangrun Fjarðabyggðarhallarinnar væri dottin út af langtímaáætlun eignasjóðs. Inn væri hins vegar komin vinna við lóð Nesskóla upp á 70 milljónir árin 2019 og 2020.
Vonast til að geta byrjað fyrr á Eskifirði
Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs, sagði enga breytingu hafa orðið á því að ætlað væri að viðbyggingin á Eskifirði kæmi í kjölfar stækkunarinnar á Reyðarfirði. Þá væri framkvæmdaáætlunin skoðuð árlega með hliðsjón af framgangi verkefna.
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, sagði að þörf væri á stækkun beggja leikskólanna og það hefði verið vitað um nokkurt skeið. Fjölgun barna væri meiri á Reyðarfirði og því væri sú bygging á undan í röðinni.
Enn væri hins vegar til skoðunar hvort og hvernig væri hægt að flýta framkvæmdum á Eskfirði. „Framkvæmdaáætlunin er ekki meitluð í stein. Það kemur enginn með hana að hausti eins og Móses kom með töflurnar af fjallinu. Ég vona að við getum hafið byggingu á Eskifirði fyrr en þarna er ætlað.“
Ekki verið að taka eitt hverfi fram yfir annað
Hann sagði ekki gott að bæjarfulltrúar létu í það skína að verið væri að forgangsraða framkvæmdum í einu hverfi sveitarfélagsins á kostnað annars. Ragnar hafnaði því að hann væri að etja saman hverfum en hann hefði sett spurningamerki við forgangsröðun fjárfestingaáætlunar.
Einar Már Sigurðsson, bæjarfulltrúi Fjarðalistans og formaður eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar, taldi Ragnar hafa ýjað að því að hann væri að misnota stöðu sína til að koma lóð Nesskóla framar á forgangslistann.
„Ég átta mig ekki á hvaða vegferð menn eru. Það hefur engin lóð við nokkra stofnun beðið jafn lengi hér. Við erum illa stödd ef við getum ekki lagfært lóð sem aldrei hefur verið í lagi,“ sagði Einar Már Hann sagði enn fremur að sú upphæð sem ætluð væri í lóðina hefði engin áhrif á viðbygginguna á Eskifirði, í því samhengi væri hún of lág.
Óróleg deild í Sjálfstæðisflokknum?
Hann sagði gagnrýnina einnig koma sér á óvart þar sem framkvæmdaáætlunin hefði verið samþykkt samhljóða í nefndinni. Hann sagði erfitt að átta sig á fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndum, ráðum og bæjarstjórn.
„Það er eins og komin sé óróleg deild í Sjálfstæðisflokkinn í Fjarðabyggð sem fær útrás með reglulegu millibili. Það er sérkennilegt að geta ekki treyst því að fulltrúi flokksins í nefnd tali í nafni flokksins og við getum allt eins átt von á annarri stefnu á næsta fundi.“
Viðbyggingin á Reyðarfirði of dýr?
Í kjölfar fundarins var skrifað undir samninga við Launafl um stækkun leikskólans Lyngholts á Reyðarfirði. Bætt verður við 350 fermetrum og gerðar breytingar á elsta hluta hússins. Viðbyggingin á að vera tilbúin árið 2020.
Rúnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, greiddi atkvæði á móti samningunum. Hann sagðist ekki vera á móti verktakanum eða byggingu leikskólans en upphæðin væri of há. Rúnar gagnrýndi að framkvæmdir hæfust að vetri til þegar jarðvegsvinna væri erfiðari og dýrari frekar en að sumri. Rúnar kvaðst óttast að slakur undirbúningur yrði meðal annars til þess að byggingin yrði tugum milljónum dýrari en áætlun hefði gert ráð fyrir.
Hann furðaði sig einnig að málið hefði ekki verið tekið til umræðu eftir kosningar í vor heldur byggt á ákvörðunum fyrri bæjarstjórnar.
Jón Björn svaraði því til að undirbúningsferlið teygði sig yfir langan tíma og víðtækt samráð hefði verið haft, meðal annars við starfsmenn á leikskólanum. Margir bæjarfulltrúar hefðu haldið áfram og ekki væri byrjað á grunni við hverjar kosningar.
Hann sagðist skilja gagnrýni Rúnars á framkvæmdatímann, en hins vegar væri sumarið það stutt að ekki væri hægt að koma öllum framkvæmdum í verk á svo stuttum tíma. Eins væri rétt að byggingakostnaðurinn værri hærra en á nýjum leikskóla í Neskaupstað sem tekinn var í notkun haustið 2016. Full ástæða væri til að greina í hverju sá mismunur lægi.