Fyrsta ferð nýju vélarinnar austur: Vonast til að geta boðið fleiri ódýrari sæti - Myndir

Fyrsta Bombardier Q400 vélin af þremur, sem Flugfélag Íslands hefur fest kaup á, flaug í fyrsta sinn austur í Egilsstaði í gærkvöldi. Tilkoma vélanna hefur í för með sér margvíslegar breytingar fyrir starfsmenn félagsins sem og farþega.


„Við erum mjög ánægð með að vera komin með þessa vél í flotann. Það eru fleiri sæti í henni en vélunum sem við höfum verið með þannig við getum flutt fleiri í hverri ferð sem er kostur á álagstímum kvölds og morgna,“ segir Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélagsins, sem var með í ferðinni austur í gær.

Q400 vélarnar taka 72-76 farþega en Fokker F50 vélarnar sem lagt verður 50. Nýju vélarnar sinna flugum til Akureyrar, Egilsstaða, þriggja áfangastaða á Grænlandi og Aberdeen en þangað hefur Flugfélagið flug eftir viku í samstarfi við Icelandair.

Fokker-vélunum lagt

Þegar mest var voru Fokker-arnir sex talsins. Einn var seldur fyrir tveimur árum þar sem ekki þótti lengur þörf á honum og að undanförnu hafa fjórar vélar verið í fullum rekstri en sú fimmta til vara. Hinar nýju vélarnar koma í apríl í maí og í byrjun sumars verður Fokker vélunum lagt og stefnt að því að selja þá.

Fokker-vélarnar voru hollenskar en tuttugu ár síðan verksmiðjurnar fóru á hausinn og framleiðslu vélanna því hætt. F50 vélar Flugfélagsins eru orðnar 24 ára gamlar og því komin þörf á endurnýjun.

Auk Q400 vélanna er flugfélagið með 37 sæta Bombardier Q200 sem flogið verður á til Ísafjarðar, Grænlands og Egilsstaða og Akureyrar eftir sem þarf. Flugfélagið hefur notast við þær í tíu ár og segir Árni að góð reynsla hafi ýtt undir að áfram var skipt við Bombardier. Vélarnar eru tólf ára gamlar og voru áður í rekstri hjá Flybe í Bretlandi.

Fleiri kostir hafi verið skoðaðir en Q400 vélarnar taldar hagkvæmastar. Árni segir þær 30% hraðari en aðrar skrúfuþotur og það skili sér í styttri ferðatíma á lengri leiðum.

Eiga að þola íslenskar aðstæður

Árni hefur trú á að Q400 vélarnar reynist vel við íslenskar aðstæður. „Bombardier er kanadískur framleiðandi og það eru sambærilegar aðstæður þar og hérlendis, vindasamt og kalt. Vélarnar hafa einnig verið notaðar mikið í Norður-Noregi.“

Flugstjórinn í gær var Ólafur Pétursson og Magnús Sigurjónsson flugmaður. „Fokker-vélarnar hafa reynst frábærlega öll þessi ár og það verður erfitt að standa undir þeim væntingum en Q200 vélarnar hafa komið mjög vel út,“ sagði Ólafur.

Hann segir hraða vélarinnar skila nokkrum mínútum í hverri ferð á milli og var ánægður með ferðina. „Aðstæður voru með besta móti. Heiðríkja og flott útsýni. Vél hristist aðeins þegar við vorum að beygja inn í brautarstefnu í aðfluginu að Egilsstöðum en annars var þetta gott.“

Starfsfólkið þarf að læra á nýju vélarnar

Fyrir þremur árum var byrjað að horfa eftir nýjum vélum og ákvörðun um kaupin tekin fyrir um ári. Það er töluvert mikið verk að taka inn nýja flugvélagerð því þjálfa þarf flugmenn, flugvirkja, hleðslumenn og flugfreyjur.

Farþegar verða fyrst og fremst varið við töluvert meira fótpláss en í þeim vélum sem Flugfélagið var með áður. Sætin eru úr leðri og grá að lit en ekki með bláu tauáklæði eins og fyrr. Þá verða tvær flugfreyjur um borð í hverri ferð, eins og skylda er með vélar fleiri en 50 sæta, þannig að 15 nýjar flugfreyjur verða ráðnar á næstunni.

„Þetta verður frábært, ekki bara fyrir farþegana heldur okkur líka. Vinnuaðstaðan er rýmri og svo bætist við félagsskapurinn. Það er alltaf plús að hafa einhvern með sér,“ segja Helena Ísaksdóttir og Bryndís Harðardóttir sem voru flugfreyjur í gær. Helena er uppalin Norðfirðingur en Bryndís er yfirflugfreyja félagsins.

Ekki áhrif á verðið

Flugfarþegum í innanlandsflugi hefur fækkað síðustu ár en Árni hefur trú á að þeim fjölgi aftur á næstunni. „Þeim fækkaði verulega eftir hrunið en það var aukning í fyrra auk þess sem við sjáum að mun fleiri erlendir ferðamenn nýta sér innanlandsflugið en áður.“

Gert er ráð fyrir að tíðni flugferða austur verði áfram óbreytt, að lágmarki þrjár ferðir hvern virkan dag og aukaferðir ef eftirspurnin er mikil. Miðaverðið breytist ekki en fleiri ódýr sætu gætu verið í boði.

„Í okkar útreikningum er ekki gert ráð fyrir að nýju vélarnar hafi áhrif til hækkunar eða lækkunar. Að teknu tilliti til sölu Fokker-vélanna er nettófjárfestingin 3,5 milljarðar og það þarf að greiða af því. Á sama tíma eru vélarnar hagkvæmari í rekstri með minni eldsneytiskostnaði og viðhaldi á hvern farþega.

Þegar við erum farin að geta borgað niður þessa fjárfestingu ætti að vera minni þörf á að hækka fargjöldin í framtíðinni en ella hefði verið.

Það er alltaf ákveðið hlutfall sæta í hverri ferð á lægra verði. Með stærri vélum verða því fleiri sæti í hverri ferð á lægri fargjöldum en við höfum séð til þessa.“

Gert er ráð fyrir að vélin verði til sýnist á Egilsstöðum á sunnudagskvöld.

Bombardier 1staflug 0002 Web
Bombardier 1staflug 0005 Web
Bombardier 1staflug 0007 Web
Bombardier 1staflug 0022 Web
Bombardier 1staflug 0029 Web
Bombardier 1staflug 0038 Web
Bombardier 1staflug 0041 Web
Bombardier 1staflug 0042 Web
Bombardier 1staflug 0046 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.