Fyrsti þyrluskíðahópurinn til Vopnafjarðar
Fyrsti hópurinn sem dvelur í veiðihúsunum í Vopnafirði og gerir þaðan út í fjallaskíðamennsku er nýfarinn þaðan. Framkvæmdastjóri Six Rivers segir ferðina hafa lukkast vel enda aðstæður góðar í austfirsku fjöllunum.„Við höfum verið að skoða möguleika í vetrarferðamennsku með nýju veiðihúsin okkar í huga.
„Heli skiing“ er vinsælt og við teljum okkur hafa allt á svæðinu sem þarf til þess. Um síðustu helgi kom til okkar hópur í gegnum Viking Heli Skiing og dvaldi í veiðihúsinu við Selá,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers.
Í þessari tegund skíðaiðkunar er skíðafólkið flutt upp í fjöllin með þyrlu og það skíðar síðan niður hlíðarnar á sínum forsendum. Gísli segir einnig vera horft til „skinning“ þar sem skinn eru sett neðan í skíði og gengið á þeim upp í mót áður en fólk rennir sér niður.
Gísli segir aðstæður eystra hafa verið góðar síðustu daga og því hafi hópurinn farið ánægður heim. „Hópurinn var í Smjörfjöllum allan daginn í gær. Svæðið er annars tiltölulega ókannað en aðstaðan í fjöllunum virðist góð. Fjöllin fyrir ofan Borgarfjörð eystra þykja til dæmis spennandi.“