„Gaman að hjálpa öðrum og líka að halda tombólu“

„Við vildum safna fyrir Krabbameinsfélag Austfjarða því það eru miklu fleiri sem styrkja til dæmis Rauða krossinn,“ segir Heiðdís Sara Ásgeirsdóttir, en hún og Manda Ómarsdóttir héldu tombóluu í sumar og söfnuðu 67 þúsund krónum fyrir félagið sem þær afhentu fyrir stuttu.

Þetta er í þriðja skipti sem þessar duglegu vinkonur halda tombólu og láta ágóðann renna til Krabbameinsfélags Austfjarða, en alls hafa þær þá safnað 206 þúsund krónum.

„Við héldum tombóluna á Bryggjuhátíðinni í sumar en peningarnir hafa verið í Íslandsbanka síðan þá,“ segir Manda og bætir við; „Við þurftum ekki að ganga í hús núna og safna, en við áttum svo mikið dót síðan síðast, sem var bara í skemmunni.“

En hvað kemur til að þær vinkonur eru svo viljugar að láta gott af sér leiða og af hverju velja þær að styrkja Krabbameinsfélag Austfjarða?

„Út af því að það eru ekki margir sem styrkja það, miklu fleiri sem styrkja rauða krossinn,“ segir Heiðdís Sara og Manda bætir við; „Já og svo þekkjum við nokkra þar sem þurfa hjálp.“

Manda segir að sér þyki gaman að hjálpa öðrum og líka að halda tombólu. Heiðdís Sara er sammála því. „Mér finnst gaman að hjálpa og gefa öðrum pening sem vantar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.