Gert við á morgun eftir hvassviðrið

Vegagerðin áformar að gera við vegi á Héraði sem skemmdust í óveðrinu í gær á morgun. Björgunarsveitir hjálpuðu fólki í vanda á Breiðdalsheiði og nóg var að gera hjá austfirskum veitingastöðum sem þurftu að sinna ferðamönnum sem voru strand.


Hávaðarok gekk yfir Austurland í gær. Veðurhamurinn náði hámarki um kaffileytið og mátti þá víða sjá 40 metra hviður á austfirskum veðurstöðvum.

Eins og Austurfrétt greindi frá í gær flettist klæðning af veginum um Fell milli Teigaból og Skeggjastaða á um 10 fermetrum. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni fór klæðningin einnig af sitt hvoru megin við brúna við Kaldá í Jökulsárhlíð. Stefnt er að viðgerðum á morgun.

Lengra er hins vegar í viðgerðir í Fljótsdal þar sem skemmdir urðu á Múlavegi og heimreiðinni að bænum Langhúsum þar sem skemmdirnar eru það miklar.

Björgunarsveitir voru kallaðar út til aðstoðar vegfarendum sem voru á leið yfir Breiðdalsheiði. Þar hafði rúða brotnað í bíl.

250 veðurtepptir Þjóðverjar fengu síðdegiskaffi og súpu í Valaskjálf á Egilsstöðum í gær. Einhverjir þeirra höfðu verið í rútum sem lentu í vandræðum á Möðrudalsöræfum í hádeginu í gær. Fólkið kom til landsins með Norrænu í gærmorgun og komst aftur í skipið um klukkan níu í gærkvöldi.

Eins var mikið að gera hjá Hildibrand í Neskaupstað um hádegisbilið í gær þegar pantað var kökuboð fyrir 100 Færeyinga. Skornar úr út kleinur úr 4 kílóum af hveiti og steikt.

Ánægðir Þjóðverjar í skjólinu í Valaskjálf. Mynd: Valaskjálf

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar