Geta hannað sitt eigið útsýnisflug hjá Flugfélagi Austurlands
Kári Kárason framkvæmdastjóri Flugfélags Austurlands segir að það sé töluverður gangur í útsýnisfluginu hjá þeim þessa dagana. Raunar sé mun meira að gera hjá þeim en á sama tíma í fyrra. Fyrir utan staðlaðar ferðir geta menn hannað sitt eigið útsýnisflug eins og þá listir.
„Það eru að mestu brottfluttir Austfirðingar og fólk sem er kunnugt staðháttum sem vill fá að hanna sitt eigið flug,“ segir Kári í samtali við Austurfrétt. „Raunar er mun meira um að Íslendingar kaupi hjá okkur útsýnisflug en útlendingar.“
Af hinum stöðluðu ferðum sem í boði eru segir Kári að sú vinsælasta sé sú sem þeir kalli „Dularfullir firðir“. „Þá er flogið upp í Borgarfjörð eystri og þaðan meðfram ströndinni suður að Reyðarfirði. Síðan er Fagridalurinn tekinn á leiðinni til baka.“
Telja hreindýr, gæsir og seli
Nóg er af öðrum verkefnum hjá flugfélaginu að sögn Kára. Sem stendur eru þeir að vinna fyrir Náttúrustofnun Austurlands við að telja hreindýr og gæsir inn á heiðum. „Og við erum líka að vinna fyrir Hafrannsóknarstofnun við að telja seli í fjörðunum hér Austanlands,“ segir hann.