Gríðarleg úrkoma í kortunum á föstudag

Blíðuveður hefur verið víða um Austurland í dag, einkum á Héraði. En búast má við skörpum umskiptum á morgun og hefur Veðurstofan sent frá sér viðvaranir.

Varað er við úrhellisrigningu á morgun og er af því tilefni gefin út gul viðvörun sem gildir fyrir Austfirði. Tiltekið er að þar verði talsverð eða mikil rigning. Búast megi við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum, sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum. Þar sem aukin hætta er á skriðuföllum og grjóthruni eru ferðamenn beðnir um að sýna aðgát í fjalllendi og í nágrenni árfarvega. Einnig má búast við auknu álag á fráveitukerfi og fólk er því hvatt til að sýna aðgát og huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Sömuleiðis er gert ráð fyrir talsverðri rigningu á Austurlandi að Glettingi, en þó ekki svo að ástæða sé talin til að gefa út viðvörun á því svæði. Þá er spáð mjög slæmu veðri á Suðausturlandi en þar hefur verið gefin út appelsínugul viðvörun vegna mikils vinds en talið er að hann geti valdið farartækjum með eftirvagna vandræðum.

 

Aukin hætta á skriðuföllum

Birgir Örn Höskuldsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að á Austfjörðum séu ekki áhyggjur af vindi en það sé mikil úrkoma væntanleg.

„Það verður enginn aftaka vindur en það er rigningin sem við erum að vara við. Frá 8 í fyrramálið og fram eftir degi lítur út fyrir mjög mikla rigningu, einkum við ströndina, og uppsafnað gæti þetta orðið 80-90mm víða á innan við 18 tímum. Það er komið nálægt þeim viðmiðum sem við höfum varðandi hættu á skriðuföllum og því sendum við þetta frá okkur núna.“

Að sögn Birgis hefur tíðarfarið undanfarið bæði jákvæð og neikvæð áhrif á aðstæður. „Það hefur verið þurrt þannig að það er kannski ekki svo mikil væta í jarðveginum svo hann tekur þá kannski betur við. En á móti kemur að það er ennþá talsverður snjór í fjöllum sem getur bráðnað og þetta verður væntanlega fremur hlý úrkoma. Svo það getur í raun aukið hættuna á skriðuföllum.“

Birgir segir að sérfræðingar Veðurstofunnar muni fylgjast grannt með gangi mála og uppfæra viðvaranir og ráðleggingar eins og þurfa þykir. „Þetta getur verið úrkoma upp á 10mm á klukkustund á einstökum stöðum og það gefur fullt tilefni til að fylgjast vel með.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar