Guðjón Hauksson nýr forstjóri HSA

Guðjón Hauksson, deildarstjóri hjúkrunardeildar Fjórðungssjúkrahússins, hefur verið skipaður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) frá 1. janúar næstkomandi. Guðjón var metinn hæfastur umsækjenda um stöðuna.


Guðjón er fæddur árið 1981 og lauk BS gráðu í hjúkrun frá Háskóla Íslands árið 2006, meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og árið 2011 útskrifaðist hann með meistaragráðu frá Boston University School of Public Health á sviði rannsókna tengdum heilbrigðisþjónustu.

Hann hefur frá 2013 starfað sem deildarstjóri á Fjórðungssjúkrahúsinu. Einnig hefur hann starfað sem sérfræðiráðgjafi hjá Lyfjagreiðslunefnd, gegnt stöðu sérfræðings í velferðarráðuneytinu, starfað sem verkefnastjóri á Landspítala og þar starfaði hann einnig sem hjúkrunarfræðingur á árunum 2006 – 2008. Árin 2009 – 2011 var hann meðrannsakandi hjá Dr. Jim Burgess, heilsuhagfræðingi.

Í niðurstöðu hæfnisnefndar segir m.a. að Guðjón hafi góða þekkingu og yfirsýn á heilbrigðisþjónustu, sé með skýra sýn á hlutverk Heilbrigðisstofnunar Austurlands og verkefni forstjóra, sé gæddur góðum leiðtogahæfileikum og hafi valist til margvíslegra forystustarfa.

Guðjón lengst til hægri við móttöku á lyfjadælum til FSN fyrir skemmstu. Mynd: HSA

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.