Hafa fimm daga frá fjárlögum til að skila inn áætlun um hagræðingu

Sýslumanninum á Austurlandi eru ætlaðir fimm dagar frá samþykkt fjárlaga til að leggja fram áætlun um hvernig embættið ætlar að ná niður tug milljóna halla. Útlit er fyrir að segja þurfi upp starfsfólki og fækka starfsstöðvum komi ekki til aukin fjárframlög.


Þetta kemur fram í bréfi sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi sendi fjárlaganefnd Alþingis áður en fundur nefndarinnar hófst í dag. Þar segir að í lok árslok 2017 sé útlit fyrir að halli í lok ársins 2017 verði 66,8 milljónir króna.

Enn er óvíst um hvenær fjárlög verða afgreidd frá Alþingi. Innanríkisráðuneytið ætlast hins vegar til að fimm dögum eftir samþykkt þeirra skili sýslumannsembættið áætlun um hvernig hallanum verði náð niður og jafnvægi fundið í rekstrinum.

Í bréfi SSA segir að um stórkostlegan vanda sé að ræða. Bent er á að með að loka útibúum sýslumanns á bæði Vopnafirði og Egilsstöðum sparist 25 milljónir á ári, að frádregnum biðlaunarétti starfsmanna og tafa vegna uppsagnarfresta af ýmsu tagi.

Sýslumaðurinn hefur þegar varað ráðuneytið við að segja þurfi um fólki og fækka starfsstöðum.

Sýslumannsembættið varð til með skipulagsbreytingum í byrjun árs 2015. Í bréfi SSA er farið fram á svör frá þingmönnum um hvernig framlögin 2017 samrýmist yfirlýsingum frá því að embættin voru sameinuð og stækkuð um að hægt væri að efla þau, meðal annars með flytja til þeirra verkefni.

„Dæmið gengur því engan veginn upp nema með algerri uppstokkun starfseminnar, sem reyndar var öll endurskipulögð á síðasta ári. Rétt er að rifja upp að við stofnun embættis Sýslumannsins á Austurlandi fékk það alltof lágar, og í raun skertar, fjárveitingar í vöggugjöf.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.