Hafnarhólminn fékk mest úr Framkvæmdasjóði ferðamanna

Austfirsk verkefni fengu 217 milljónir þegar tilkynnt var um úthlutum úr Framkvæmdasjóði ferðamanna í gær. Borgarfjarðarhreppur fær hæsta styrkinn á landsvísu til uppbyggingar í Hafnarhólma. Minnst 85 milljónir eru eyrnamerktar austfirskum áfangastöðum í þriggja ára verndaráætlun.

„Við erum afar ánægð með að fá þennan stuðning. Það væri lítið byggt hjá okkur ef ekki væri fyrir þennan sjóð,“ segir Jón Þórðarson, sveitarstjóri Borgarfjarðarhrepps.

Hreppurinn fékk í gær tæpar 77 milljónir króna til að ljúka byggingu aðstöðuhúss í Hafnarhólma. Húsið á að nýtast bæði ferðamönnum og þeim sem starfa við útgerðina á Borgarfirði.

Áætlað er að um 1000 gestir leggi leið sína upp í Hafnarhólmann hvern dag yfir háannatímann til að skoða lundabyggðina sem þar er. Á sama tíma eru að jafnaði 50-60 tímar á bílastæðinu. „Við erum að bregðast við gríðarlegum straum.“

Framkvæmdir eru hafnar en segja má að þær hafi byrjað með hugmyndasamkeppni árið 2015. Upphafleg kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 150 milljónir og hefur sjóðurinn styrkt verkið allan tímann.

„Við byrjuðum framkvæmdir í fyrra og höfum verið að dunda við þetta í vetur. Við sjáum fram á að allri steypuvinnu verði lokið fyrir sumarið og byggingin að einhverju leyti tekin í gagnið á árinu.“

Tvö önnur austfirsk meðal tíu hæstu

Alls er 722 milljónum veitt úr sjóðnum að þessu sinni til margvíslegra verkefna um allt land. Alls fá 15 austfirsk verkefni 217 milljónir. Af öðrum myndarlegum styrkjum má nefna að 22,4 milljónum er veitt til að laga aðstöðu í Herðubreið á Seyðisfirði og 21,9 milljón til uppbyggingar stjörnuskoðunarhúss við Óbyggðasetrið í Fljótsdal. Þá fær Fjarðabyggð rúmar 19 milljónir til að bæta aðstöðu í fólkvanginum í Neskaupstað og Páskahelli.

Ekki er þar með allt upptalið því samhliða úthlutuninni í gær tilkynntu tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar um 2,1 milljarða úthlutun vegna þriggja ára verkefnaáætlunar landsáætlunar um uppbyggingu innviða árin 2018.

Verkefnaáætlunin tekur m.a. til friðlýstra svæða og fjölsóttra staða í eigu íslenska ríkisins, valinna svæða sveitarfélaga auk landvörslu. Þá er fé veitt til óstaðbundinna áhersluverkefna. Alls er fjármagni veitt á 71 stað og eina gönguleið til fjölbreyttra verkefna, með sérstaka áherslu á vernd náttúru, minjavernd, bætt öryggi, svo og bætta aðstöðu fyrir gesti á þessu stöðum.

Níu þessara staða eru á Austurlandi og fá þeir tæpar 85,5 milljónir. Nokkrir þeirra fá einnig fjármagn úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Blábjörg og Helgustaðarnáma eru nefndir sem staðir sem sérstaklega þurfi að fylgjast með og auk þeirra eru Teigarhorn og Skriðuklaustur, sem stöð Vatnajökulsþjóðgarðs, nefnd í upptalningu á staði þar sem landvarsla verði efld.

Austfirsku verkefnin sem fengu úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Borgarfjarðarhreppur: 75,8 milljónir
Til hvers? Byggja aðstöðuhús við Hafnarhólma með salernum, sturtum og útsýnispalli.
Umsögn: Ferðamannastaðurinn í og við Hafnarhólma hefur mikið aðdráttarafl þökk sé afar aðgengilegri lundabyggð og skynsamlegri uppbyggingu á staðnum. Húsið er til þess fallið að auka enn á þetta aðdráttarafl um leið og það stuðlar að verndun lundabyggðarinnar. Hönnun á húsinu er metnaðarfull og framsækin eins og verkefnið í heild sinni. Sjóðurinn hefur styrkt verkefnið frá upphafi og er um að ræða styrk út sjóðnum til að ljúka verkefninu.

Herðubreið, Seyðisfirði: 22,4 milljónir
Til hvers? Styrkurinn felst í almenningssalerni í Herðubreið, bættu aðgengi og bílastæði á fjölsóttum ferðamannastað.
Umsögn: Mikilvægt og vel útfært innviðaverkefni á Seyðisfirði.

Óbyggðasetur Íslands, Fljótsdal: 21,86 milljónir
Til hvers? Að setja upp stjörnuskoðunarhús og heita laug sem opin verður almenningi.
Umsögn: Óbyggðasetrið hefur getið sér gott orð fyrir frumleika, sögu- og staðarvitund. Verkefnið er til þess fallið að skapa nýja afþreyingu á veiku svæði sem gæti styrkt ferðamennsku sérstaklega á veikri árstímum.

Fjarðabyggð: 19,4 milljónir
Til hvers? Bæta aðgengi ferðamanna og verja viðkvæma náttúru með frekari uppbyggingu innviða Fólkvangsins í Neskaupstað. Styrkurinn felst í því að gera áningarstað og bílastæði, þjónustuhús, göngustíg að útsýnisskífu og við hana og göngustíg að Páskahelli.
Umsögn: Fólkvangurinn við Neskaupstað er vinsælt útivistarsvæði sem hefur burði til að laða að sér fleiri ferðamenn. Verkefnið er mikilvægt, sérstaklega hvað varðar náttúruvernd og öryggi ferðamanna.

Seyðisfjarðarkaupstaður, 14,4 milljónir
Til hvers? Laga og endurbæta göngustíg upp að Búðarfossi.
Umsögn: Augljóst og mikilvægt náttúruverndar- og öryggisverkefni við fjölsóttan foss á Seyðisfirði

Fljótsdalshreppur, 11 milljónir
Til hvers? Fullnaðarhönnun á aðstöðuhúsi við hengifoss og nánasta umhverfi auk hönnunar og gerðar upplýsingaskilta.
Umsögn: Hengifoss er einn helsti ferðamannastaður Austurlands, sem þó er frekar veikt ferðmannasvæði. Aðstaða ferðamanna verður að vera til fyrirmyndar þar og ljúka þarf verki sem þegar er hafið. Verkefnið er sérstaklega líklegt til að auka aðdráttarafl staðarins en stuðlar einnig verulega að bættum innviðum. Metnaðarfullt verkefni á veiku svæði sem byggir á hönnun úr samkeppni sem styrkt var af Framkvæmdasjóðnum.

Fljótsdalshreppur, 4 milljónir
Til hvers? Ganga frá göngustíg upp að Hengifossi
Umsögn: Hengifoss er einn helsti ferðamannastaður Austurlands, sem þó er frekar veikt ferðmannasvæði. Göngustígar þurfa að vera til fyrirmyndar þar og ljúka þarf verki sem þegar er hafið. Verkefnið er sérstaklega mikilvægt öryggismál og stuðlar einnig verulega að náttúruvernd.

Jökuldalur slf., 8,7 milljónir
Til hvers? Setja upp merkingar, bílastæði, stíga og stikur við Stuðlagil auk þess að undirbúa og hanna stíga stígakerfi og útsýnispall í gilinu.
Umsögn: Stuðlagil í Jökulsá á Dal er ein af leyndu „perlunum“ sem skyndilega hefur sprungið út fyrir tilstilli samfélagsmiðla. Stórfenglegur ferðamannastaður hefur opnast fyrir tilviljun og kallar á nauðsynlega innviði, sérstaklega þá er snúa að öryggi ferðamanna.

Fjarðabyggð: 8,2 milljóninr
Til hvers? Að ljúka framkvæmdum í Hólmanesi samkvæmt deiliskipulagi. Sérstök áhersla er á að efla fræðslu á svæðinu.
Umsögn: Hólmanes er sérstakur og áhugaverður viðkomustaður á veiku svæði.

Fjarðabyggð: 7,27 milljónir
Til hvers? Ljúka framkvæmdum samkvæmt deiliskipulagi við sjávarhverinn Söxu. Í þessum áfanga felst vinna við hellulagningu og frágang bílastæðis, uppbyggingu stígakerfis og áningarstaðar á gönguleið frá bílastæði að sjávarhvernum.
Umsögn: Saxa á milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar er áhugaverður staður á fremur veiku svæði, hún er ekki „hver“ í hefðbundnum skilningi, heldur staður þar sem sjór „gýs“ í öldu, mikilfenglegar eftir því sem sjógangur er meiri. Verkefnið vekur athygli á hvernum, gerir fólki kleift að leggja á öruggan hátt, ganga stutta leið eftir fallegri strönd og njóta hversins frá öruggum stað. Verkefnið á því eftir að ,,opna“ fyrir nýjan ferðamannastað með sitt eigið náttúrlega aðdráttarafl.

Fljótsdalshérað: 5,15 milljónir
Til hvers? Endurskoða gönguleiðina út að Stapavík. Verkefnið felur í sér hönnun og útfærslu, stikun gönguleiðar, uppsetningu brúa, útsýnispall, öryggishandrið, upplýsingaskilti og malarfyllingu á bílastæði.
Umsögn: Stapavík er áhugaverður staður fyrir náttúrufar og sögu. Útsýni er þar stórfenglegt og gönguleiðin á staðinn er ekki síðri. Verkefnið stuðlar að auknu öryggi, náttúruvernd og er til þess fallið að til verði nýr og fjölsóttur áfangastaður ferðafólks.

Alda Jónsdóttir, Djúpavogshreppi: 5 milljónir.
Til hvers? Hanna og reisa brú yfir Fossá við Miðásgljúfur sem þolir ágang árinnar í vatnavöxtum.
Umsögn: Fossárvík í Berufirði er orðin að einum fjölsóttasta ferðamannastað við hringveginn, án þess að þar sé nokkur aðstaða að neinu tagi sem hentar ferðamönnum. Landslag er hrikalegt og hættur víða, mosaskemmdir algengar og líklegt að þær aukist að umfangi.
Lagt er til að styrkur verði veittur til 2 ára þar sem mikilvægt er að ljúka við gerð deiliskipulagsins fyrst. Styrkur verður því veittur þegar samþykkt deiliskipulag liggur fyrir. Að öðrum kosti verður verkefnið ekki styrkt, styrkurinn fellur niður án frekari viðvarana og styrkfjárhæðin rennur aftur í sjóðinn til endurúthlutunar.

Alda Jónsdóttir, Djúpavogshreppi: 4,89 milljónir
Til hvers? Deiliskipuleggja svæðið í Fossárvík í heild til að hlífa náttúru,auka öryggi gesta og tengja saman áhugaverða staði.
Umsögn: Mjög mikilvægt er fyrir staðinn að skipuleggja hann og stýra ferðamönnum.

Alda Jónsdóttir, Djúpavogshreppi: 4 milljónir
Til hvers? Gera stígakerfi við Fossá, koma upp varúðar- og fræðsluskiltum.
Umsögn: Fossárvík þarf á góðu gönguleiðakerfi að halda, bæði til að vernda náttúru og tryggja öryggi.

Gunnarsstofnun, Fljótsdal: 3,8 milljónir
Til hvers? Byggja upp ferðamannastaðinn Skriðuklaustur samkvæmt áætlun, viðhalda minjum miðaldaklausturs, búa til klausturgarð með jurtum og þrautabraut fyrir börn milli Gunnarshúss og Snæfellsstofu.
Umsögn: Áhugavert verkefni sem styrkir þekktan ferðamannastað á fremur veiku ferðamannasvæði með nýju aðdráttarafli. Hugmyndin er ný og fersk en byggir einnig á sögu og sérstöðu staðarins.

Staðir í verndaráætlun 2018-2020

Krepputunga, Fljótsdalshéraði: 25 milljónir
Þurrsalerni við Kverkfjöll. Umsjón: Vatnajökulsþjóðgarður

Blanda við Geldingafell, Fljótsdal: 15 milljónir
Göngubrú yfir Blöndu við Geldingafell. Umsjón: Vatnajökulsþjóðgarður

Teigarhorn, Djúpavogshreppi: 13,7 milljónir
Endanleg hönnum áfangastaða við mörk fólkvangs, bætt salernisaðstaða, lagning gönguleiða utan nærsvæðis Teigarhorns, endanleg hönnun áfangastaða og bílastæða innan fólkvangs, aðgerðir vegna brottnáms geislasteina – girðing til að hefta aðgengi að svæði við fjöruborðið í náttúruvætti, aðkomuskilti við Teigarhorn, upplýsingaskilti um náttúruvættið Teigarhorn, öryggis- og verndargirðing, göngustígar í næsta umhverfi Weywadtshúss, hellulögð stétt og malarstígur. Umsjón: Djúpavogshreppur, Umhverfisstofnun, Þjóðminjasafn Íslands
Salernisaðstaða, hönnun áningarstaða og framkvæmdir við Weywadthús á dagskrá 2018.

Hengifoss, Fljótsdalshreppi: 10 milljónir
Stækkun bílastæðis og viðhald göngustíga. Umsjón: Fljótsdalshreppur

Galtastaðir fram, Fljótsdalshéraði: 8,25 milljónir
Bílastæði, deiliskipulag, göngustígar og merkingar. Umsjón: Þjóðminjasafn Íslands

Fjárborg í Mjóafirði, Fjarðabyggð: 6 milljónir
Lagfæra hleðslur í fjárborginni vegna álags ferðamanna og skilti með umgengnisreglum. Umsjón: Minjastofnun Íslands.

Fossárvík, Djúpavogshreppi: 5 milljónir
Fjölgun bílastæða í Fossárdal. Umsjón: Djúpavogshreppur

Hallormsstaðarskógur, Fljótsdalshéraði: 1,5 milljónir
Lokahönnun á þjónustuhúsi (eldaskáli). Umsjón: Skógræktin

Djáknadys í Hamarfirði, Djúpavogshreppi: 1 milljón
Skilti og afmörkun. Umsjón: Minjastofnun Íslands
Á dagskrá 2018.

Nánar um úthlutunina og kort yfir staðina sem styrktir eru má finna með að smella hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.