Hafró kynnir svæði fyrir 22.000 tonna fiskeldi á Austfjörðum

Hafrannsóknastofnun (Hafró)hefur sent Skipulagsstofnun til kynningar tillögu sína að afmörkun eldissvæða fyrir fiskeldi í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Um er að ræða 15.000 tonn í Fáskrúðsfirði og 7.000 tonn í Stöðvarfirði.

Eldissvæðin eru þrjú í Fáskrúðsfirði, við Eyri/Fögrueyri, Höfðahúsabót og Æðarsker og skiptist magnið jafnt á milli þeirra þriggja. Í Stöðvarfirði er um að ræða eitt svæði í sunnanverðum firðinum.
Burðarþolsmat Hafró fyrir Fáskrúðsfjörð byggir á gögnum frá 2016 en fyrir Stöðvarfjörð er matið frá 2017.

Í tilkynningu frá Skipulagsstofnun segir m.a. að með breytingum á lögum um fiskeldi sem tóku gildi árið 2019 er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun ákveði eldissvæði í sjó á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða.

Við kynningu tillögunnar nú gefst stjórnvöldum aðliggjandi sveitarfélaga og þeim sem búa yfir þekkingu á náttúrufari og nýtingu á svæðinu tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum um aðstæður og starfsemi á svæðinu sem mikilvægt er að hafa í huga, áður en ákvörðun er tekin um afmörkun eldissvæða.

Allir geta kynnt sér tillögu Hafrannsóknastofnunar að eldissvæðum í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði og lagt fram athugasemdir til 14. ágúst n.k. en tillögurnar eru á vefnum skipulag.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.