Halla Hrund enn sjónarmun á undan á Austurlandi
Fjórðu vikuna í röð mælist Halla Hrund Logadóttir með mest fylgi meðal Austfirðinga af frambjóðendum til forseta Íslands. Hún er þó aðeins sjónarmun á undan Katrínu Jakobsdóttur.Í könnun Maskínu sem gerð var dagana 13. – 16. maí mælist Halla Hrund með 29,7% fylgi á Austurlandi en Katrín með 20,7%. Milli vikna tapar Halla Hrund 7% meðan Katrín vinnur sér inn 8%. Landshlutinn er næst sterkasta vígi beggja.
Eins og annars staðar á landinu er Halla Tómasdóttir í mikilli sókn, er með 18,5%. Fylgi hennar hefur ekki verið sérstaklega greint síðustu vikur á svæðinu. Austurland er hennar sterkasta landssvæði.
Hratt hefur fjarað undan Baldri Þórhallssyni, hann er með 9%, helming þess hann hafði fyrir viku og þriðjung þess sem hann var með fyrir þremur vikum. Í stað þess að Austurland sé eitt hans sterkasta svæði verður það hans næst slakasta.
Jón Gnarr mælist með 8,2%, svipað og fyrir viku. Borgarstjórinn fyrrverandi á ekki upp á pallborðið meðal Austfirðinga, eins og vikið verður betur að hér að neðan. Aðrir frambjóðendur fá samanlagt 6,4%.
Hvert þeirra er númer tvö eða síðast?
Aðra vikuna í röð spurði Maskína hvaða frambjóðanda fólk kysi ef þeirra helsti kostur væri ekki í framboði. Þar er Katrín efst með 21,4% en Baldur 21%. Katrín bætir aðeins við sig meðan Baldur tapar lítillega. Halla Tómasdóttir mælist með 18,3% en hún var í samtölu annarra fyrir viku. Halla Hrund er með 13,8% sem er viðbót frá síðustu viku. Aðrir eru með 23,1%, en það er ekki sundurgreint.
Að lokum spurði Maskína aftur hvaða frambjóðenda fólk vildi síst. Þar segjast 56,9% Austfirðinga síst vilja Jón Gnarr. 17% segjast síst vilja Katrínu, Austurland er því sá landshluti sem hefur minnst óþol gagnvart henni. 11,7% merkja við Höllu Hrund, 9,7% við Höllu Tómasdóttur og Baldur 4,7%.
Hvað segja tölurnar?
Almennt sýna tölurnar frá Austurlandi þróun í sömu átt og á landsvísu. Katrín Jakobsdóttir sækir í sig veðrið, Halla Tómasdóttir er í mikilli sókn. Á sama tíma hefur fylgi Höllu Hrundar og Baldurs minnkað.
Svörin í könnuninni eru færri en vikurnar á undan, um eða undir 30 talsins þar sem flestir svöruðu spurningunni um hvaða frambjóðanda þeir vildu síst.