Halldóra Kristín býður sig fram á lista Framsóknarflokksins

Akureyringurinn Halldóra Kristín Hauksdóttir er meðal þeirra níu einstaklinga sem gefa kost á sér við valið í efstu sætin á lista Framsóknarflokksins fyrir komandi þingkosningar. Valið hest á mánudag.

Halldóra Kristín hefur komið víða við í starfi flokksins. Í framboðskynningu sinni rifjar hún upp að hún hafi sem barn farið í Framsóknarútilegur með foreldrum sínum en síðan meðal annars setið í stjórn SUF, í uppstillinganefnd, verið bæjarfulltrúi á Akureyri og fleira.

Halldóra Kristín er menntaður lögfræðingur og starfar á velferðarsviði Akureyrarbæjar. Hún er hefur að auki nýlega lokið MBA námi frá Háskóla Íslands.

Hún er fædd og uppalinn á Svalbarðsströnd og rekur enn eggjabúið Grænegg í Sveinbjarnargerði ásamt systur sinni og hennar fjölskyldu. Hún situr í stjórn Bændasamtakanna og Byggðastofnunar.

Í tilkynningu kveðst Halldóra undanfarnar vikur hafa fyllst stolti fyrir að tilheyra Framsóknarflokknum því honum hafi tekist að koma fjölmörgum málefnum áfram, þrátt fyrir gífurlegar áskoranir í heiminum.

„Ég er mikil samvinnukona og trúi því að samvinna og samstaða skili okkur bestum árangri, skili okkur bestu niðurstöðunni fyrir sem flesta. Stjórnmálin má vonandi færa nær slíku vinnulagi. Við þurfum að sameina krafta okkar hvar í flokki sem við stöndum til að ná árangri í svo mörgum málaflokkum t.d. menntamálum, umhverfismálum og velferðarmálum. Styrkja grunnstoðirnar okkar enn frekar og efla getuna til þess að bregðast við þegar á móti blæs, en það er full þörf á því að ekki bara bregðast við heldur líka breyta þegar þörf er á.“

Halldóra segist hafa gaman af að tvinna saman ólík sjónarmið og lýsir því þeirri skoðun að margt sé sameiginlegt með velferðar-, landbúnaðar- og byggðamálum sem séu þeir málaflokkar sem séu henni efst í huga um þessar mundur.

Halldóra Kristín býr á Akureyri með kærasta sínum og samanlagt eiga þau fimm börn. Hún býður sig fram í 4. – 6. sæti listans. Níu bjóða sig fram í sex efstu sætin. Póstkosning um þau hefst á mánudag og stendur út marsmánuð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.