Heildræn nálgun sem tekur á öllum þáttum heilsu
„Þetta er mikilvægt verkefni því að lífsstílssjúkdómar eru stórt vandamál og það skortir langtímaúrræði og forvarnir“ segir Hrönn Grímsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, hjá Austurbrú, sem er að fara að taka þátt í Erasmus verkefninu „Líf og heilsa“.
Austurbrú er þátttakandi í Erasmus verkefninu „Líf og heilsa“ en þátttökuþjóðirnar eru þrjár: Ísland, Noregur og Ítalía. Verkefnið snýst um heilsueflingu fullorðinna og er byggt í kringum námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins „Líf og heilsa - lífsstílssþjálfun". Markmið námsins er að auka þekkingu námsmanna á áhrifaþáttum heilsu, leikni þeirra í heilsulæsi og hæfni til að taka ábyrgð á eigin heilsu. Ásamt því að taka þátt í öllum þáttum verkefnisins er meginhlutverk Austurbrúar að prufukeyra námskrána á Austurlandi og deila reynslunni til samstarfsaðila.
„Með þessu verkefni er þróuð heildræn nálgun þar sem tekið er á öllum þáttum hvort sem þeir snúa að andlegri heilsu, mataræði eða hreyfingu,“ segir Hrönn, en það var SÍBS sem átti frumkvæði að verkefninu og fer með verkefnisstjórn
Hópunum fylgt eftir í heilt ár
Verkefnið hófst formlega í september en lýkur sumarið 2020 með ráðstefnu í Reykjavík þar sem niðurstöður þess verða kynntar. Austurbrú mun hafa umsjón með tveimur hópum í vetur þar sem stuðst verður við námskrána.
„Núna erum við í undirbúningsvinnu en markmiðið er að fara af stað í janúar, hinum klassíska heilsumánuði,“ segir Hrönn og hlær.
„Við vinnum eftir námskrá sem inniheldur þætti eins og heilsulæsi og læra gagnrýna hugsun þegar allskonar heilsuráð hellast yfir okkur úr samfélaginu. Einnig verður unnið með andlega heilsu og talað um einkenni streitu, kvíða og álags og hvernig það hefur áhrif á alla okkar heilsu. Þá verður komið inn á markmiðasetningu, skráningar á mataræði og hreyfingu og margt fleira. Sjálft námskeiðið stendur í fjóra mánuði og svo verður eftirfylgni það sem eftir lifir ársins. Að því loknu metum við árangurinn og framhaldið en í vetur er meðal annars fyrirhuguð vinnuferð til Noregs þar sem samstarfsþjóðirnar bera saman bækur sínar. Í maí er einnig ráðgert að halda heilsudag hér fyrir austan þar sem verkefnið verður kynnt, boðið verður uppá heilsufarsmælingar ásamt ýmsum skemmtilegum viðburðum tengdum heilbrigði og vellíðan,“ segir Hrönn.
Hrönn segir að vonir standi til að eftir prufutímabilið verði námskeiðin auglýst bæði meðal fyrirtækja og einnig opin fyrir almenning, en verið sé að þróa rafrænt námsefni þannig að sem flestir geti tekið þátt, sama hvar þeir eru staddir.