Heldur fækkar í sóttkví
Sex einstaklingar eru í einangrun á Austurlandi vegna virks Covid-19 smits. Tuttugu og tveir eru í sóttkví og hefur þeim heldur fækkað síðustu daga.Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands. Lögregla hefur til rannsóknar meint sóttkvíarbrot þar sem einstaklingur fór af dvalarstað án heimildar í síðustu viku.
Norræna kom til Seyðisfjarðar í morgun með um 160 farþega. Þeir fóru allir í sýnatöku um borð og ættu niðurstöður að liggja fyrir innan sólarhrings. Þeirra bíður nú fimm daga sóttkví og sýnataka í kjölfarið í samræmi við sóttvarnarreglur.
Tveir voru smitaðir um borð sem fóru í sýnatöku hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands til mótefnamælingar. Þeir voru í einangrun um borð og verða áfram í einangrun að minnsta kosti þar til niðurstaða mótefnamælingar liggur fyrir.